Innlent

Fjöregg R-listans hjá VG

Borgarstjórnarflokkur R-listans kom saman til fundar í gær, en margt bendir til þess að hann þurfi næstu mánuðina að starfa við ný skilyrði þar sem dagar R-listans kunna að vera taldir. Félagsfundur Reykjavíkurfélags Vinstri grænna hefur verið boðaður á mánudag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er talið að niðurstaða þess fundar ráði úrslitum um það hvaða stefnu málið tekur innan flokkanna þriggja og hvort samstaf innan R-listans haldi lífi. Stefán Jón Hafstein Samfylkingunni og borgarfulltrúi R-listans segir að fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík komi saman til fundar á miðvikudaginn kemur. "Það er enn líf í þessu, að minnsta kosti fram yfir helgina," segir Stefán Jón. Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi óháðra á R-listanum segir að það standi óhaggað að hann ætli ekki að bjóða sig fram fyrir næstu borgarstjórnarkosningar verði ekkert af frekara R-lista samstarfi. "Mér finnst ekki koma til greina að fara fram með óháðan lista. Reykjavíkurlistinn snýst um það að koma til valda hugsunum félagshyggjunnar og breyta borginni í þeirri mynd. Hann hefur hrundið af stað lífsgæðabyltingu sem ég held að allir í Reykjavíkurlistanum megi vera stoltir af. Þetta snýst ekki um sérstöðu einhverra innan listans eða mína sérstöðu heldur einmitt hugsjónirnar sem þessir flokkar og utanflokkafólk innan R-listans hefur staðið fyrir. Þess vegna er ekki á dagskrá af minni hálfu að fara fram með óháðan lista. Ég var vongóður og rólegur og það voru líklega mistök. Eftir árangurslausar viðræður er ég nú orðiðnn svartsýnn. Menn hafa sökkt sér ofan í öfugan enda og hugsað um hagsmuni flokkanna en ekki hagsmuni kjósenda sinna." Dagur neitar því ennfremur að hann hyggist ganga til liðs við Samfylkinguna."Ég er bara einn af fjölmörgum í borginni sem hef átt erfitt með að finna mér farveg innan tiltekins flokks. Þess vegna er Reykjavíkurlistinn mikilvægur farvegur fyrir alls konar fólk sem vill hafa jákvæð áhrif á umhverfið í kring um sig," segir Dagur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×