Innlent

Mótmæla hækkun leikskólagjalda

Stúdentar eru ævareiðir vegna komandi hækkunar leikskólagjalda hjá foreldrum þar sem annað er í námi. Stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir vel koma til greina að fólk skrái sig úr námi eða úr sambúð vegna þessa. Stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur skorað á borgarstjórn Reykjavíkur að draga til baka eða bæta fyrir þá ákvörðun sína að breyta gjaldskrám leikskólanna á þann hátt að um næstu mánaðarmót hækka leikskólagjöld verulega hjá þeim fjölskyldum þar sem annað foreldrið er í námi. Við hækkun gjaldanna frá og með 1. september aukast tekjur leikskólanna um 40 milljónir ár hvert. Samkvæmt ársreikningi Leikskóla Reykjavíkur eru heildartekjur hans rúmir 5 milljarðar króna og aukast tekjur leikskólanna því um 0,8 prósent á ári miðað við þessar 40 milljónir. Þetta þýðir hins vegar umtalsverða útgjaldaaukningu námsmanna en með hækkuninni aukast útgjöld fjölskyldna þar sem annað foreldri er í námi um um það bil 31 prósent. Stjórn Stúdentaráðs hefur gagnrýnt þessa ákvörðun borgarinnar harkalega og segir hana ganga gegn yfirlýsingum borgarstjórnar um að vilja skapa fjölskylduvæna borg og stuðla að jafnrétti. Breytingin geti orðið til þess að fæla fjölskyldufólk frá borginni og er til þess fallin að vinna gegn almennu jafnrétti til náms. Þessi breyting geti orðið til þess að stúdentar hætti í námi og skrái sig jafnvel úr sambúð. Segir í tilkynningu frá Stúdentaráði að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir á undanförnum mánuðum til að fá fund með ráðamönnum borgarinnar hafi ekkert gerst í þeim efnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×