Innlent

Kynslóðaskipti í skipulagsmálum

Hugmyndir um flugvöll á Lönguskerjum má þakka kynslóðaskiptum í skipulagsmálum borgarinnar. Þetta segir Trausti Valsson sem kynnti hugmyndir að flugvelli á þessum stað fyrir nákvæmlega 30 árum. Þann 20. ágúst árið 1975 birtist opnuviðtal við Trausta í Tímanum sáluga þar sem hann kynnti hugmyndir sínar að flugvelli á Lönguskerjum. Trausti segir að það sé merki um kynslóðaskipti að verið sé að ræða þessar hugmyndir nú, þrjátíu árum eftir að þær komu fyrst fram. Það hafi verið stífla í skipulagsmálum í Reykjavík sem sé að losna mikið um núna. Sýn sveitamannsins hafi ráðið miklu hingað til og unga fólkinu hafi verið boðið lóðir upp við Hafravatn og langt upp á heiðum en það vilji búa í borg, nálægt miðbænum. Lykilatriði sé að losna við flugvöllinn en um leið að hafa hann í hjarta höfuðborgarsvæðisins. Trausti segir að það sé mjög gott að flugrekstraraðilarnir komi sjálfir fram með vilja til að skoða þessa hugmynd. Hann segist vilja sjá bæði innanlands- og alþjóðaflugvöll á Lönguskerjum. Spurður hvort hann telji að flugvöllur verði byggður á Lönguskerjum svarar Trausti játandi. Hann telji að aðeins eigi að reka einn flugvöll og ef brúað yrði yfir til Álftaness yrði um 10 mínútna akstur út á flugvöllinn fyrir fólk af langmestum hluta höfuðborgarsvæðisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×