Innlent

Aðhald en velferð

Geir Haarde fjármálaráðherra og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fengu í gær heimild þingflokka sinna til þess að vinna áfram að gerð fjárlaga fyrir næsta ár á grundvelli sem kynntur hefur verið stjórnarþingmönnum. "Þetta byggist á þeim langtímamarkmiðum sem við kynntum fyrir tveimur árum. Fyrir liggur að hagur ríkissjóðs er mjög góður og horfur ágætar fyrir næsta ár. Við verðum að halda okkur við markmið um aðhald en það er mjög mikilvægt eins og nú er ástatt í efnahagslífinu," segir Geir Haarde. Hann vill ekki ræða nánar hvað í aðhaldinu felist, en gera verði ráð fyrir verulegum afgangi á fjárlögum næsta árs. "Andvirði Símans er ekki enn til umræðu í þessu sambandi." Geir kveðst ekki hafa bakþanka vegna væntanlegrar lækkunar tekjuskatts og afnám eignaskatts. "Áhrifa lækkunarinnar gætir ekki fyrr en árið 2007 þegar gera má ráð fyrir að dragi úr þenslunni." "Þetta verður velferðarfrumvarp sem tekur einnig tillit til þenslunnar í efnahagslífinu," sagði Hjálmar Árnason þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Þingflokkurinn fól Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra og formanni flokksins að vinna áfram að gerð fjárlagafrumvarpsins á grundvelli þeirra forsendna sem hafi verið kynntar. "Þær eru í grundvallaratriðum þær að nauðsynlegt sé að ná efnahagsmarkmiðum en jafnframt eigi þetta að vera velferðarfjárlög. Ekkert bendir til annars en að lögboðnar ákvarðanir um lækkun tekjuskatts og afnám eignaskatts standi," segir Hjálmar. Hann tekur undir með Geir Haarde og segir að lækkun svonefnds matarskatts sé ekki lögð til grundvallar í fjárlagagerðinni. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt fund sinn á Ísafirði en fundur þingflokks Framsóknarmanna var haldinn í Reykjavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×