Innlent

Össur: Höfnuðu Stefáni Jóni!

Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar fullyrðir að Framsóknarflokkurinn hafi hafnað Stefáni Jóni Hafstein, sem borgarstjóra í fyrra í stað Þórólfs Árnasonar. Hann segir Framsóknarflokkinn hafa verið hræddan um að með því væri verið að búa til enn einn hershöfðingjann fyrir Samfylkinguna. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, gerði framboðsmál Samfylkingarinnar að umtalsefni á vefsíðu sinni í dag. Þar gagnrýnir hann framgöngu borgarstjóra í viðtali við ríkisfjölmiðlana í gær, en Steinunn Valdís fullyrti þar að Stefán Jón væri búinn að ganga með borgarstjórann lengi í maganum. Þetta finnst Össuri óviðkunnanleg ummæli. Það þarf ekki mikla pólitíska skarpskyggni til að lesa út úr skrifum Össurar að hann er hrifnari af Stefáni Jóni en Steinunni Valdísi. Hann rifjar upp að Stefán hafi á sínum tíma unnið Steinunni í prófkjöri og þannig verið oddviti Samfylkingarinnar í síðustu kosningum, og komið séð og sigrað. Þá segir Össur að það hafi verið vegna verðleika sinna, en ekki galla sem Stefáni Jóni hafi verið hafnað sem borgarstjóra, eftir afsögn Þórólfs Árnasonar, og að sú ákvörðun hafi verið tekin á skrifstofu Halldórs Ásgrímssonar. Össur fullyrðir að Framsóknarflokkurinn hafi einfaldlega ekki viljað taka þá áhættu að í Ráðhúsinu yxi enn á ný upp hugsanlegur hershöfðini úr liði Samfylkingarinnar. Þetta er sannleikurinn segir Össur og hann segir engan vita það betur en fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. Steinunn Valdís sefnir ótrauð á fyrsta sæti flokksins í prófkjöri. Steinunn segir að sér lítist vel á samkeppnina sem Stefán Jón hefur boðað og segir það strykja flokkinn að fleiri en einn skuli sækjast eftir fyrsta sætinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×