Innlent

Baráttuhugur í Gísla Marteini

Gísli Marteinn Baldursson ætlar í borgarstjóraslaginn, segist treysta sér í baráttuna og ætlar að berjast eins og ljón. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson gefur einnig kost á sér í fyrsta sæti listans og má því búast við baráttu innan flokksins. Gísli Marteinn Baldursson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti á fjölmennum stuðningsmannafundi í Iðnó í dag að hann stefndi á fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti Sjálfstæðisflokksins tilkynnti í síðustu viku að hann stefndi á fyrsta sæti flokksins. En Gísli segist ætla að berjast fyrir tilurð sinni, hvar sem hann svo endar á listanum, hann segist ætla að berjast eins og ljón í hvaða sæti og hann sagðist vilja hafa afgerandi áhrif á listann. Hann sagðist stefna á efsta sætið og ef kjósendur telja að hann sé vel til fallinn að leiða listann og koma sínum málefnum á framfæri þá segir hann að kjósendur kjósi hann, ef ekki þá kjósa þeir einhvern annan. Spurður að því hvort að hann ætlaði að verða borgarstjóri í Reykjavík sagði hann að það væri ekki hans að ákveða, heldur kjósenda. Hann sagðist hins vegar treysta sér mjög vel í borgarstjórastarfið. Það er því ljóst að slegist verður um fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Auk þeirra Gísla Marteins og Vilhjálms hefur nafn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar verið nefnt í umræðunni um efstu sætin en hann vildi ekkert segja þegar fréttastofan náði af honum tali. Í vikunni mun svo einnig vera tíðinda að vænta frá nokkrum þeirra sem sækjast eftir öðrum sætum á listanum. Aðspurður um það hvort að hann gerði ráð fyrir að fá fleiri í slaginn um fyrsta sætið sagðist hann ekki gera neitt sérstaklega ráð fyrir því. Hann sagði að enginn ætti neitt sérstakt sæti og kjósendur sjá um að velja í það sæti. Hann sagði einnig að hann og Vilhjálmur væru sammála um að fara sér hægt til þess að koma í veg fyrir að þreyta fólk of mikið. Úr röðum borgarfulltrúa heyrast þó þær raddir að baráttan innan Sjálfstæðiflokksins fari heldur snemma af stað megi því gera ráð fyrir blóðugri slag en ella.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×