Innlent

Flestir vilja Gísla Martein

Flestir Reykvíkingar vilja Gísla Martein Baldursson sem næsta borgarstjóra samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Tæpur fjórðungur þeirra sem tóku afstöðu valdi hann. Gísli Marteinn, sem nú er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, tilkynnti á sunnudag að hann sæktist eftir efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokks í komandi prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningar. Stefán Jón Hafstein, efsti maður Samfylkingar á lista Reykjavíkurlistans, var næstoftast nefndur sem vænlegt borgarstjórnarefni, en rúmur fimmtungur nefndi hann á nafn. 18 prósent sögðust vilja Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík. Fjórða í könnuninni varð núverandi borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, og nefndu hana rúm tíu prósent þeirra sem tóku afstöðu. "Ég er þakklátur fyrir þessa könnun og finnst gaman að sjá að fólk hefur trú á mér sérstaklega að því að könnunin var tekin áður en ég lýsti því yfir að ég stefndi á fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins," sagði Gísli Marteinn Baldursson. "Ég segi fyrir mig að ég er voðalega glaður með þessa niðurstöðu en ég ætla ekki að gefa neitt út um aðra," segir Stefán Jón Hafstein. "Niðurstaðan í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna skiptir auðvitað mestu máli í þessu samhengi en þar munu flokksbundnir sjálfstæðismenn velja fulltrúa flokksins á framboðslista fyrir komandi kosningar," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. "Könnunin er gerð á laugardag og sunnudag þegar áskorendurnir tveir, Gísli Marteinn og Stefán Jón, voru áberandi í fjölmiðlum," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×