Innlent

R-listi fengi átta borgarfulltrúa

Ef samstarfsflokkar um Reykjavíkurlistann hefðu náð samkomulagi um að bjóða aftur fram í næstu borgastjórnarkosningum hefði listinn fylgi 48,9 prósent Reykvíkinga, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 47,8 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 1,9 prósent Frjálslynda. 1,3 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust myndu kjósa eitthvað annað. Ef þetta væri niðurstaða kosninga myndi R-listinn fá átta borgarfulltrúa, líkt og hann hefur nú. Sjálfstæðismenn fengju sjö borgarfulltrúa, í stað sex borgarfulltrúa sem þeir hafa nú og Frjálslyndi flokkurinn fengi engan borgarfulltrúa. Í könnun sem Fréttablaðið birti á mánudag, um fylgi flokkanna í Reykjavík, kom fram að þeir flokkar sem nú mynda R-listann höfðu stuðning 43,3 prósent svarenda. 53,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 2,2 prósent sögðust styðja Frjálslynda flokkinn. Heldur fleiri tóku afstöðu þegar spurt var hvaða lista fólk myndi kjósa, ef Reykjavíkurlistinn byði fram aftur, eða 64,9 prósent í stað tæplega 57 prósenta sem tóku afstöðu þegar spurt var hvaða lista fólk myndi kjósa ef gengið yrði til borgarstjórnarkosninga nú. Gæti það gefið til kynna að hluti óákveðinna, sem voru stuðningsfólk R-listans hafi ekki gert upp hug sinn, hvern af samstarfsflokkunum það mun kjósa í næstu kosningum. Nokkur munur var á afstöðu kynjanna. 49,5 prósent karla sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokk, en 45,9 prósent kvenna. Þá sögðust 45,1 prósent karla, sem gert höfðu upp hug sinn, myndu kjósa R-listann, en 53,3 prósent kvenna. 2,9 prósent karla sögðust myndu kjósa Frjálslynda, en 0,8 prósent kvenna. Sé litið til allra svarenda höfðu 24,9 prósent ekki gert upp hug sinn og sögðust óákveðin, 22,5 prósent karla og 27,3 prósent kvenna. Könnun var gerð dagana 27. og 28. ágúst. Hringt var í 800 Reykvíkinga, skipt jafnt milli kynja og valið af handahófi úr þjóðskrá. Spurt var: "Hvaða lista hefðir þú kosið, hefðu samstarfsflokkar um Reykjavíkurlistann náð samkomulagi um að bjóða aftur fram undir hans nafni?" og tóku 64,9 prósent svarenda afstöðu til spurningarinnar. Fylgi flokka ef Reykjavíkurlisti byði fram aftur  Skoðanakönnun 27-28/8                                  Úrslit kosninga 2002       %          Borgarfulltrúar                                    %         Borgarfulltrúar D 47,8                    7                                                 40,2            6 F  1,9                      0                                                   6,1            1 R 48,9                     8                                                 52,6            8 Annað 1,3             0                                                   1,2            0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×