Innlent

Hvatt til hófstilltrar rjúpnaveiði

Rjúpnaveiðitímabilið verður sjö vikur og verða veiðimenn hvattir til hófstilltra veiða. Þá er algjört sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum. Umhverfisráðherra kynnti nýja reglugerð um rjúpnaveiðar í dag. Rjúpuna má fara að veiða þann 15. október og stendur veiðitímabilið til 30. nóvember. Enginn kvóti er settur á magn hvers veiðimanns en Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hvetur veiðimenn til að gæta hófs í veiðunum. Hún segir enn fremur að stórt svæði á Suðvesturlandi verði friðað eins verið hafi undanfarin ár. Þá leggi ráðuneytið mjög mikla áherslu á hvatningarátak sem blásið verði til meðal veiðimanna þar sem hvatt verði til hófstilltra veiða. Það verði unnið í samstarfi við stofnanir ráðuneytisins, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, og hagsmunaaðila eins og Skotvís og Bændasamtökin. Með þessum aðgerðum er stefnt að því að rjúpnaveiði í haust verði ekki meiri en 70 þúsund fuglar. Davíð Egilsson, forstjóri Umhverfisstofnunar, er ánægður með reglugerðina og telur menn verða læra af reynslunni. Aðspurður hvort hann telji að hvatningarátak ráðherra muni skila árangri segist Davíð sannfærður um að það gangi vel en sé það grundvöllurinn að því að árangur náist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×