Innlent

Tekið harðar á heimilisofbeldi

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur ákveðið að fylgja fram tillögum refsiréttarnefndar um að breyta hegningarlögum til að unnt verið að bregðast harðar við heimilisofbeldi. Kom þetta fram í ræðu ráðherrans í dag á norrænni ráðstefnu um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, sem haldin er hér á landi að frumkvæði Stígamóta. Þá skýrði ráðherrann frá því að dómsmálaráðuneytið og refsiréttarnefnd hefðu fjallað um verklagsreglur ríkislögreglustjóra um heimilisofbeldi og væru þær nú komnar til fullnaðarafgreiðslu. Sagðist ráðherrann gera sér góðar vonir um, að þessar reglur skiluðu góðum árangri og markvissum rannsóknum lögreglu á heimilisofbeldisverkum. Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinum kemur fram að dómsmálaráðherra muni, á grundvelli álitsgerðar refsiréttarnefndar um heimilisofbeldi, leggja til á Alþingi að við almenn hegningarlög bætist sérstök refsiþyngingarástæða þar sem náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa gert árásina grófari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×