Innlent

Hefur ekki lokið BA-prófi

Gísli Marteinn Baldursson, sem sækist eftir að verða borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, er ekki með BA próf í stjórnmálafræði, eins og hann heldur fram í bókinni Samtíðarmenn. Gísli Marteinn segir þetta eiga sér eðlilegar skýringar. Í bókinni Samtíðarmenn, ævi og störf kunnra Íslendinga eru æviágrip fjölmargra þekktra manna og meðal þeirra er Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og hugsanlegur borgarstjóri í Reykjavík. Í hans ágripi segir meðal annars að hann hafi lokið BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2002. Þetta er ekki rétt, Gísli hefur ekki enn lokið þessu prófi. Gísli Marteinn sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 á þessu væru eðlilegar skýringar. Hann hefði verið nokkuð viss um að hann yrði búinn að ljúka síðasta áfanga prófsins áður en bókin kæmi út. Hann ætti aðeins eftir örlítið brot af náminu og hefði gert námslokasamning til þess að sinna öðrum verkefnum. Hann myndi klára þetta nám þegar um hægðist hjá sér. Gísli Marteinn er staddur í Finnlandi og þegar talað var við var hann mjög að flýta sér. Það varð að samkomulagi að hann myndi eiga símaviðtal við fréttastofuna í dag. Ekki náðist hins vegar samband við hann fyrir fréttir og nánari skýringar hans bíða því betri tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×