Innlent

Vilja kosningu um álver

Kynningarfundur bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um deiliskipulag vegna stækkunar álversins í Straumsvík fór fram í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni. Oddviti Vinstri - grænna segir framgöngu forsvarsmanna álversins á fundinum misbjóða bæjarbúum. Um 300 manns sótttu fundinn sem haldinn var í gærkvöld. Gengið var á forsvarsmenn álversins um aukna umhverfis- og sjónmengun frá stækkuðu álveri, nálægðina við nýja byggð í Hafnarfirði. Ljóst er að hugmyndir um stækkun álversins eru hitamál í bænum. Að sögn bæjaryfirvalda eru forsendur fyrir stækkuninni annars vegar bestu fáanlegu mengunarvarnir og hins vegar samþykkt deiliskipulagsins. Frestur til að gera skriflegar athugasemdir við það er til 12. september. Hugmyndir hafa verið uppi um kosningu meðal íbúa bæjarins um stækkunina. Það hafa forsvarsmenn álversins harðlega gagnrýnt og falið lögfræðingum sínum að kanna lögmæti slíkrar atkvæðagreiðslu. Nokkur hundruð bæjarbúar hafa skrifað undir áskorun til bæjaryfirvalda um kosningu. Gestur Svavarsson, oddviti Vinstri grænna í Hafnarfirði, segir einkum tvennt standa upp úr eftir fundinn í gær. Annars vegar það að Alcan misbjóði Hafnfirðingum með þeirri yfirlýsingu upplýsingafulltrúa fyrirtækisins um að það sé bæði ólöglegt og ósiðlegt að gefa íbúum Hafnarfjarðar færi á að segja sína skoðun um sín eigin málefni með íbúalýðræðisatkvæðgreiðslu. Þá standi einnig upp úr þau fyrirheit bæjarstjóra um það að til atkvæðagreiðslu um málið skyldi boðað, líklegast í kjölfar umræðu um hugsanlegt framkvæmdaleyfi til stækkunar álversins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×