Innlent

Vísað til Framkvæmdaráðs

Kjartan Magnússon kynnti í borgarstjórn í gær tillögu að því að taka upp gjaldfrí bílastæði með tímatakmörkunum, líkt og gert hefur verið á Akureyri. Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði fram breytingartillögu, sem var samþykkt, um að vísa hugmyndinni til Framkvæmdaráðs, sem myndi skoða slíkt kerfi í samráði við hagsmunaaðila. Steinunn benti þó á að nýting bílastæða á svæði 1 í Reykjavík væri nú um 90 prósent, en hefði verið um tíu prósent á Akureyri. Því væri ólíku um að jafna. Þá benti Anna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans, á að tekjur vegna bílastæðagjalda hefðu á síðast ári verið 430 milljónir sem hefðu runnið til uppbyggingar bílastæða og bílastæðahúsa. Á Akureyri hefðu tekjur á síðasta ári vegna bílastæðagjalda verið um 16 milljónir. Reiknað væri með að Akureyrarbær yrði af átta til tíu milljónum ári með því að taka upp gjaldfrí bílastæði. Ekki hefði komið fram í ræðu Kjartans hversu miklum tekjum Reykjavíkurborg verði af ef klukkukerfið verður tekið upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×