Innlent

Breytingar mestar fyrir flokkinn

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrirhreyfingarinnar - græns framboðs, segir að pólitíkin á Íslandi muni breytast í kjölfar þess að Davíð Oddsson hverfur af vettvangi þeirra, en hann tilkynnti sem kunnugt er að hann hygðist standa upp úr stól utanríkisráðherra 27. september næstkomandi. Steingrímur segir að breytingarnar séu mestar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það eigi eftir að koma í ljós hvernig sjálfstæðismönnum takist að vinna úr þeim. Steingrímur segir Davíð hafa verið sterkan foringja sem stjórnað hafi með sínum stíl og harðri hendi. Hann hafi viðurkennt það sjálfur að hann hafi ekki verið sérstaklega umburðarlyndur gagnvart uppsteyt eða óþægð, en hann hafi tekið fyrsta kjörtímabil sitt sem formaður Sjálfstæðisflokksins til þess að sýna mönnum hvað biði þeirra sem væru óþægir. Sagan segi að flokkar eigi oft í talsverðum erfiðleikum með að fóta sig eftir að tímar svona sterka leiðtoga líða undir lok. Steingrímur óskar þeim mönnum sem nú taka við nýjum störfum í flokknum og ríkisstjórn velfarnaðar en segir kapalinn mjög fyrirsjáanlegan hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem goggunarröðin gildi, en fyrst og síðast vilji hann óska Davíð Oddssyni alls góðs á nýjum vettvangi og sérstaklega góðrar heilsu og langra lífdaga. Steingrímur segir flestallt hafa gerst eftir bókinni nema það eitt að Davíð skuli fara inn í Seðlabankann. Hann hafi frekar átt von á því að Davíð vildi njóta lífsins og hægja á sér. Spurður hvort hann telji að Davíð verði pólitískur seðlabankastjóri segir Steingrímur að hann hafi engar áhyggjur af því að hann verði það umfram aðra sem verið hafi í sömu sporum, en hann fylgi í fótspor Birgis Ísleifs Gunnarssonar og Steingríms Hermannssonar. Hann hafi lengi sýslað við efnahagsmál þannig að hann sé enginn viðvaningur á því sviði. Steingrímur segir þó að það megi spyrja að því að maður sem komi úr ríkisstjórn sem hafi keyrt ákveðna efnahags- og atvinnustefnu sem Seðlabankinn hafi að hluta til verið að glíma við komi inn í Seðlabankann. Hann hafi þó enga ástæðu til annars en að ætla að Davíð reyni að sýna fagmennsku og yfirvegun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×