Innlent

Davíð jafnvel sá sterkasti

Þegar hann er spurður um stærstu pólitísku afrek Davíðs á ferlinum segir Gunnar að það hljóti að vera alveg sérstakt afrek að hafa verið einn helsti valdamaður á Íslandi í aldarfjórðung. "Það er alveg sama hvað mönnum finnst um Davíð Oddsson, allir eru sammála um að hann er einn sterkasti stjórnmálaleiðtogi sem við höfum haft. Hann er þar í hópi með Jónasi frá Hriflu, Ólafi Thors, Bjarna Benediktssyni, Hermanni Jónassyni og fleirum. Sumir myndu jafnvel segja að hann væri sá sterkasti," segir Gunnar. "Davíð tók við Sjálfstæðisflokknum í rúst að ýmsu leyti. Flokkurinn var mjög veikur vegna innri átaka," bendir Gunnar á. "Hann friðaði flokkinn og tókst að koma upp mjög samstarfshæfri einingu sem bæði hefur gengið ágætlega í kosningum undir hans stjórn mestan partinn og tekist að vera í ríkisstjórn allan tímann sem er fekilegt afrek," segir Gunnar. Spurður um fyrir hvað Davíðs Oddssonar verði helst minnst segir Gunnar að á þeim valdatíma sem Davíð hafi verið við lýði hafi orðið mikil kerfisbreyting í íslensku samfélagi. "Íslenskt samfélag hefur þróast frá mjög umfangsmiklu ríkiskerfi yfir til mjög frjálsra markaðsþátta. Sjálfsagt munu menn víst lengi deila um hver á hvað í þeim efnum, en mín ágiskun er sú að þessi breyting verði kennd við Davíð því hann er fasti punkturinn yfir þennan tíma," segir Gunnar. "Þá geta menn talað um Framsóknaráratuginn á árunum 1970 til 1980 og Davíðstímann milli 1991 og 2004," segir Gunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×