Innlent

Flutningstími sjúkra muni lengjast

Það er ekki og verður aldrei valkostur, samkvæmt ákalli frá Norðurlandi, að lengja flutningstíma bráðveikra og slasaðra af landsbyggðinni á hátæknisjúkrahús í Reykjavík, með því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Þetta segir meðal annars í ályktun hóps Svarfdælinga, þar sem þeir benda jafnframt á að allir hlutaðeigandi verði að gera sér grein fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur sé sameign þjóðarinnar allrar og kjósendur borgarinnar geti fráleitt tekið sér einhliða ráðstöfunarrétt á þessum flugvelli án tillits til þarfa og öryggishagsmuna landsbyggðarinnar. Bent er á að að bestu útbúnu sjúkrahús landsins séu á höfuðborgarsvæðinu og að þau séu eign allra landsmanna sem eigi sama rétt á greiðu aðgengi til þeirra þegar á þarf að halda. Reykjavíkurflugvöllur sé tenging landsbyggðarinnar við þessi sjúkrahús en með því að loka flugvellinum og fljúga sjúklingum til Keflavíkur í staðinn lengist flutningstími þeirra á sjúkrahúsin um að minnsta kosti ríflegan hálftíma, sem geti skipt sköpum. Svarfdælingurinn Ragnar Stefánsson, sem meðal annara stendur að þessari ályktun og er líka formaður landssamtakanna Landsbyggðin lifir, segir að þessi sjónarmið séu víðar uppi úti um landsbyggðina og ætli samtökin að stuðla að umræðu um það á heimasíðu sinni á næstunni. Margir Vestfirðingar, Austfirðingar og Norðlendingar séu á þessari skoðun og brýnt sé að líta til þessara hátta í stað þess að einblína á hagsmuni borgarbúa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×