Innlent

Boðaði framboð í öryggisráð

MYND/AP
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tók í gærkvöldi af skarið með framboð Íslendinga til setu í Öryggisráði Sameinuðuþjóðanna þegar hann lýsti því yfir á leiðtogafundi samtakanna að Íslendingar ætluðu að bjóða sig fram. Miðað er við kjörtímabilið 2009 til 2010. Davíð Oddsson utanríkisráðherra sagði nýverið að það biði Geirs Haarde, verðandi utanríkisráðherra, að taka ákvörðun í málinu. Geir hefur sagt að hann vilji ekki tjá sig um málð fyrr en hann hefur formlega tekið við embætti utanríkisráðherra en nú liggur ákvörðunin hins vegar fyrir. Athygli vekur að í frétt frá forsætisráðuneytinu um innihald ræðu Halldórs, sem send var út rétt fyrir miðnætti, er ekki minnst á þessa yfirlýsingu hans og Morgunblaðið greinir frá því að í ræðu Halldórs sem birt var á vef Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi hafi yfirlýsingin ekki verið með, en Halldór bar hana hins vegar fram í lok ræðunnar á fundinum sjálfum. Áætlað hefur verið að það kosti um það bil 600 milljónir króna að vinna framboðinu fylgis því fleiri sækjast eftir sætinu. Ríkisstjórnir hinna norrænu ríkjanna hafa þegar lýst stuðningi við framboðið og það hafa ýmsar aðrar þjóðir gert líka þótt niðurstaða sé alls ekki í hendi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×