Innlent

Ekki athugasemdir við orð Halldórs

Davíð Oddssson, utanríkisráðherra, gerir engar athugasemdir við það að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra skyldi nefna framboð Íslands til öryggisráðsins á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra meðal annars að hann teldi að Íslendingar geti lagt sitthvað af mörkum til friðar og velferðar í aðildarlöndum samtakanna og því byðu þeir sig nú í fyrsta skipti fram til öryggisráðsins. Þessi ummæli hafa verið túlkuð á þann veg að Halldór hafi þarna, á alþjóðavettvangi, verið að negla framboðið niður, en efasemdir hafa komið fram um það á undanförnum misserum, hjá sjálfstæðismönnum. Eftir þetta verði ekki aftur snúið. Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, er þessu ekki sammála. Hann gerir engar athugasemdir við orð forsætisráðherra enda sé ákvörðun Íslendinga um framboð löngu orðin opinber og hafi áður verið rædd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Auk þess hafi fulltrúar bæði Tyrkja og Austurríkismanna ítrekað sitt framboð til öryggisráðsins og því hefði það verið skrýtið ef fulltrúi Íslands hefði þagað þunnu hljóði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×