Innlent

Ríkisstjórnin sögð í afneitun

Ráðgert er að ríkissjóður verði rekinn með liðlega 14 milljarða króna afgangi árið 2006. Í fjárlagafrumvarpi, sem Árni Mathiesen fjármálaráðherra lagði fram á alþingi í gær, eru tekjur ríkissjóðs á næsta ári áætlaðar alls um 327 milljarðar króna en útgjöld um 313 milljarðar. Vegna áframhaldandi þenslu í efnahagslífinu er áfram gert ráð fyrir aðhaldi í útgjöldum ríkissjóðs. Með sérstökum aðgerðum verða úgjöldin lækkuð um fjóra milljarða króna og munar þar mestu um frestun á framkvæmdum í vegamálum fyrir tvo milljarða króna. Á föstu verðlagi aukast útgjöld til menntamála um 12 prósent frá fjárlögum þessa árs. Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir að þetta sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki. "Þar erum við að leggja grunn að hagvexti framtíðarinnar," segir Árni. "Ég sé ekki að ríkissjóður sé á nokkurn hátt að horfast í augu við jafnvægisleysið í þjóðarbúskapnum. Ríkisstjórnin er á afneitunarstigi," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, um fjárlagafrumvarpið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar spyr um þann stöðugleika sem ræddur sé í fjárlagafrumvarpinu. "Er það stöðugleiki heimilanna sem juku skuldir um 150 milljarða króna milli ára? Er það stöðugleikinn sem endurspeglast í háum stýrivöxtum og háu gengi? Eða viðskiptahalla sem er sá mesti frá því sögur hófust?" "Staða samkeppnins- og útflutningsgreinanna er afleit vegna hágengis og ég get ekki séð að fjárlögin breyti þar nokkru um," segir Guðjón A. Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins kveðst ekki sjá í fljótu bragði að fórnarlömb efnahagsstefnunnar, útflutningsgreinarnar, eigi von um betri tíð með fjárlögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×