Innlent

Sameiningarkosningar í dag

Kosið er um 16 sameiningartillögur í 61 sveitarfélagi í dag. Ólíklegt þykir að af sameiningu verði flestum þessara staða en bæjarstjórar og oddvitar hafa margir hverjir verið duglegir við að hvetja sitt fólk til að kjósa gegn sameiningu. Kosið er meðal annars um að gera Eyjafjarðarsvæðið að einu sveitarfélagi, Árnessýslu að tveimur, um sameiningu Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar og um sameiningu allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Um 70 þúsund manns eru á kjörskrá, flestir eru í Hafnarfirði eða rúmlega fimmtán þúsund - þá eru fæstir á kjörskrá í Mjóafjarðarhreppi, en þar eru aðeins 38 á kjörskrá. Verði sameiningar samþykktar fækkar sveitarfélögum á landinu úr 92 í 47. Lítill vilji virðist vera á Suðurlandi fyrir því að sex sveitarfélög í Ölfusi og Flóa sameinist í eitt. Þá er einnig talið líklegt að sameining verði að engu á Suðurnesjum og sömu sögu er að segja um sameiningarnar í Eyjafirði. Atkvæðagreiðsla fer fram um 16 sameiningartillögur í 61 sveitarfélagi á 80 kjörstöðum. Jöfnunarsjóður fær 2,4 milljarða króna sem afhentir verða nýjum sveitarfélögum til að þróa stjórnsýslu sína og þjónustu næstu fögur ár eftir sameiningu en tveir þriðju íbúa á hverju svæði verða að samþykkja sameiningu svo hún geti gengið í gegn. Ljóst er að tilfinningar fólks spila stóran þátt í máli þessu sem og fjárhagsstaða bæjanna sem er mjög misjöfn, en þessir tveir þættir eru taldir munu ráða niðurstöðum kosninganna á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×