MasterCard hefur verið einn af tryggustu samstarfsaðilum Íslensku óperunnar um árabil og verður áframhald á því samstarfi í vetur. MasterCard kemur að hádegistónleikaröð Óperunnar þriðja árið í röð, en alls verða fernir hádegistónleikar í Óperunni í vetur, tvennir á haustmisseri og tvennir á vormisseri.
Bjarni Daníelsson, óperustjóri og Ragnar Önundarson framkvæmdarstjóri MasterCard undirrituðu á dögunum samstarfssamning vegna tónleikanna í anddyri Óperunnar en handhafar MasterCard greiðslukorta fá 20% afslátt á tónleikana, greiði þeir með kortinu.
Fyrstu tónleikarnir verða þriðjudaginn 1. nóvember kl. 12.15 og eru það þau Hanna Dóra Sturludóttir sópran og Kurt Kopecky á píanó sem kom fram á tónleikunum. Yfirskrift tónleikanna er Leyndardómar í draumum og sögum og á efnisskránni eru m.a. aríur eftir Dvorak, Wagner og Verdi. Aðrir tónleikarnir á haustmisseri verða þann 29. nóvember kl. 12.15 en þá mun Hlín Pétursdóttir sópran flytja aríur eftir Stravinsky, Britten og Menotti.
Á fyrstu hádegistónleikum vormisseris eru það þau Einar Th. Guðmundsson, baritón og Katharina Mooslechner, sópran sem koma fram. Þau munu flytja „Brúðkaupsdagskrá", en þau ætla einmitt að gifta sig í janúar. Kolbeinn Ketilsson, tenór sem kemur fram á síðustu hádegistónleikum vetrarins flytur kansónur úr suðri og norðri þ.e. sönglög frá Noregi, Svíþjóð og Ítalíu.
Dagsetningar á hádegistónleikum vormisseris verða auglýstar síðar.
Hádegistónleikarnir standa yfir í c.a. 40 mínútur og er hægt að kaupa samlokur í anddyri Óperunnar fyrir eða eftir tónleikana svo að enginn ætti að þurfa að fara svangur aftur út í amstur dagsins.