Fastir pennar

Ný viðmið um ábyrgð

Þetta hefur verið undarleg vika. Það gerist ekki oft að viðlíka uppnám grípi þjóðina og varð við þau hörmulegu tíðindi sem bárust á þriðjudag, að maður hefði svipt sig lífi í kjölfar fréttaflutnings DV. Á eftir fylgdu viðbrögð sem eiga sér fá fordæmi. Ritstjórar DV, útgefendur og eigendur fyrirtæksins, sem gefur blaðið út, fengu yfir sig skriðu af ásökunum, þar á meðal féllu þung orð sem voru í eðli og inntaki af nákvæmlega sama toga og blaðið var sakað um að nota í fréttaflutningi sínum.

Ekki er hægt að segja að DV-menn hafi brugðist vel við gagnrýninni. Það var sorglegt að horfa á ritstjóra blaðsins neita viðtölum við fréttakonu NFS og vísa henni á dyr með þeim orðum að ekki mætti mynda á ritstjórninni, hún hefði átt að hringja á undan sér og svör þeirra gæti hún heyrt í Ríkissjónvarpinu síðar um kvöldið. Ef það eru einhverjir sem geta ekki leyft sér að láta ágengan fréttaflutning fara í taugarnar á sér eru það þeir sem réðu ríkjum á DV.

Það hefur verið stór galli á DV hvað það hefur átt erfitt með að viðurkenna og biðjast afsökunar þegar blaðinu hafa orðið á mistök. Þegar ekið er hratt og glannalega, missa menn stundum af beygjum og enda úti í skurði. Mistök eru nánast óhjákvæmilega fylgifiskur blaðamennsku eins og hefur verið stunduð á DV. Eitt megineinkenni DV hefur verið þrálátar fréttir og harmsögur af algjörlega óþekktu ógæfufólki og einstaklingum sem sumt hvert gat illa borið hönd fyrir höfuð sér, jafnvel vegna andlegra veikinda. Og fyrir þá stefnu hafa Mikael Torfason og Jónas Kristjánsson goldið með störfum sínum.

Hins vegar má fyrir alla muni ekki gleyma því að DV réðst langt í frá einungis á garðinn þar sem hann er lægstur. Blaðið flutti líka hik- og refjalaust fréttir sem komu illa við auðmenn, frægðarfólk, stjórnmálamenn og aðra sem eiga mikið undir sér. Og DV þeirra Mikaels og Jónasar á sér ekki síður merkilega sögu við að fletta ofan af hættulegum ofbeldis- og glæpamönnum á beinskeyttari hátt en aðrir íslenskir fjölmiðlar. Lögðu þeir þar með sjálfa sig og fjölskyldur sínar í hættu sem þurfti að taka mjög alvarlega. Það þarf góðan skammt af hugrekki og þreki til að vera í forsvari við blað eins og DV hefur verið, og hafa Mikael og Jónas nóg af hvoru tveggja.

Undanfarna daga hefur verið klifað á því sem aldrei fyrr að Ísland sé of lítið fyrir blað eins og DV. Ég er þvert á móti sannfærður um að það sé ekki aðeins pláss heldur beinlínis þörf fyrir ágengt og harðsnúið dagblað hér á landi.

Ef nota má orðið jákvætt um einhverja atburði þessarar vikur þá er það sú þverpólitíska samstaða sem skapaðist allt frá ungliðahreyfingum til þingflokka stjórnmálahreyfinga landsins. Og það er ekki meint í þeim skilningi að það hafi verið jákvætt að þessir hópar skyldu taka höndum saman gegn DV, þvert á móti var sú aðkoma stjórnmálalífsins ankannaleg. Nei, það sem var jákvætt var sú eindregna þverpólitíska samstaða upprennandi og núverandi stjórnmálamanna um að menn verði að taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Hingað til hefur það ekki beinlínis verið stíll íslenskra stjórnmálaforingja að axla ábyrgð. Venja þeirra er að setja undir sig höfuðið og bíða af sér vond veður þegar þeir hafa orðið uppvísir að einhverjum afglöpum. Þannig sitja til dæmis sem fastast tveir ráðherrar í ríkisstjórn landsins sem hafa gerst sig seka um embættisfærslur sem kærunefndir og dómstólar hafa úrskurðað gegn og kostað skattborgara tugi milljóna.

Þeir sem krefjast þess af öðrum að taka ábyrgð verða að gera það sjálfir. Það færi aldrei sem svo að viðbrögð flokkanna í þessari viku væru ávísun á siðbót í íslenskum stjórnmálum?






×