Viðskipti innlent

Dræmar viðtökur á yfirtökutilboði

Actavis þreifar fyrir sér í Króatíu.
Hefur gert óformlegt tilboð um kaup á öllu hlutafé samheitalyfjafyrirtækisins Pliva.
Actavis þreifar fyrir sér í Króatíu. Hefur gert óformlegt tilboð um kaup á öllu hlutafé samheitalyfjafyrirtækisins Pliva.

Actavis Group hefur sent stjórnendum króatíska semheitalyfjafyrirtækisins PLIVA óformlegt tilboð um kaup á öllu hlutafé félagsins, sem skráð er í kauphöllinni í Króatíu og London. Tilboðið kveður á um að greitt verði HRK 570 fyrir hvern hlut í félaginu, sem er um 35 prósenta yfirverð miðað við meðalgengi hlutabréfa félagsins síðustu þrjá mánuði. Markaðsvirði félagsins, að teknu tilliti til yfirverðs, er sagt vera um 1,6 milljarðar dollara eða um 110 milljarðar króna.

PLIVA var stofnað árið 1921 og sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja, eftir að hafa selt frá sér frumlyfjastarfsemi sína á síðasta ári. Hjá félaginu starfa rúmlega 6000 manns. Velta félagsins í fyrra nam 1,2 milljörðum dollara. Félagið er sagt hafa góða markaðsstöðu í Króatiu, Póllandi og Rússlandi, auk þess að selja lyf til Þýskalands, Ítalíu, Spánar og Bandaríkjanna.

Á heimasíðu Pliva er staðfest að yfirtökutilboð hafi borist en haft eftir stjórnendum fyrirtækisins að tilboðið sé of lágt og endurspegli ekki virði og framtíðarmöguleika þess. Robert Wessman, forstjóri Actavis, sagði í viðtali við Dow Jones-fréttastofuna að til greina kæmi að hækka tilboðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×