Viðskipti innlent

Danske leiðir lán til BN

Unnið er að lokafrágangi sam­bankaláns til BNbank í Noregi undir forystu Danske Bank. Lánið er tekið á svokölluðum millibankalánamarkaði, en hann er einn valkosta banka við fjármögnun, auk skuldabréfaútgáfu og fleiri leiða. BNbank er í eigu Glitnis banka, en er sjálfstæður banki með eigin fjármögnun.

Samkvæmt heimildum Markaðarins er ekki búið að loka láninu og því liggja ekki fyrir kjörin sem bankanum bjóðast, en stefnt mun að því að skrifa undir lánið í lok þessa mánaðar eða byrjun næsta. Að sama skapi liggur ekki enn fyrir hversu margir bankar koma á endanum til með að taka þátt í láninu.

21. mars gaf greiningardeild Danske Bank frá sér svarta skýrslu. Umfjöllunarefnið var bág staða íslensku bankanna og yfirvofandi efnahagskreppa á Íslandi.

Greiningardeildir bankanna hér sögðu skýrsluna illa grundaða og á misskilningi byggða og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn brást við með tilkynningu um styrka stöðu íslensku bankanna. Greiningardeildir eru hins vegar sjálfstæðar og ekki hægt að setja samasemmerki á milli skrifa þeirra og annarrar starfsemi banka.

Sambankalánið til BNbank sem unnið er að er sambærilegt við lán sem Kaupþing banki fékk í Evrópu undir miðjan síðasta mánuð, en þar naut bankinn um fjórum sinnum hagstæðari kjara en buðust á skuldabréfamarkaði. Þar tóku alls 27 bankar þátt í láninu sem var að upphæð 500 milljónir evra, eða um 43 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×