Íslenska byltingin 28. ágúst 2006 11:30 Byltingardagurinn okkar er 1. mars. Þann dag árið 1989 þusti alþýðan út á götur borgarinnar og hellti sig fulla af nýfengnu frelsi: Bjórinn hafði verið leyfður. Bjórdagurinn er okkar Bastilludagur. Mannkynssagan á það til að endurtaka sig og þá stundum með skoplegum hætti. Við getum sagt að hér hafi það gerst með ögn saklausari hætti. Íslenska byltingin hafði sínar afleiðingar en hún var ekki blóðug. Ártölin stemma hinsvegar undarlega vel. Réttum tvö hundruð árum eftir að Parísarbúar réðust að Bastillu-fangelsinu skáluðu Reykvíkingar fyrir betri tíð. 1989 var ekki bara frelsisár Austur-Evrópu. Það tók Frönsku byltinguna þó nokkur ár að ganga endanlega frá gamla kerfinu, gamla konungdæminu. Loðvík XVI var ekki líflátinn fyrr en fjórum árum eftir Bastilludag. Rúmum fjórum árum eftir Bjórdaginn gekk Ísland í EES og gömlu höftin féllu eitt af öðru. Nýir siðir leystu þjóð úr læðingi. Byltingarforingjarnir hétu Davíð og Jón Baldvin. Ég ætla þó seint að líkja þeim við grimmhundana Danton og Robespierre. En rétt eins og foringjarnir frönsku misstu þeir völd sín og allir vita hver náði þeim. Byltingin át börnin sín en Napóleon át byltinguna. Frakkland varð keisaraveldi hvar einn maður réði öllu. Sumir halda því fram að keisaratíminn hafi verið gullöld Frakka. Aðrir benda á mannslífin sem hann kostaði. 19. öldin var hinsvegar óumdeilanlega nokkuð frönsk. Frakkar áttu heiminn. Allt frá Washington til Pétursborgar þótti fínt að tala frönsku. Skáldsögur Tolstois eru jafn fullar af frönskum frösum og skáldsögur nútímans eru af enskum. Frönsk orð smugu inn í flest tungumál heimsins. Sígaretta, lonníettur, karafla... (oftast heiti á einhverju spjátringapjátri). Á þessum tíma voru Frakkar í stöðugri útrás. Napóleon flaug til Rómar, Vínar og Brussel í hverri viku til frekari landvinninga. Árangur hans í útlöndum tryggði hásætið heima. Og smám saman var gengið frá gamla aðlinum, Búrbónunum. Það tók okkur Íslendinga reyndar ögn lengur að ganga frá „fjölskyldunum fjórtán" - Kolkrabbinn var ekki afhausaður fyrr en eftir aldamót - og seint verður sjálfsagt talað um 21. öldina sem „íslensku öldina". Þó hefur fyrsta íslenska orðið, „skyr", nú hafið innrás sína í tungumál heimsins og kannski endar öldin á því að hugtök eins og „sólarfrí" og „júróvisjónpartý" verði notuð jafnt í Pétursborg og Washington. En að öllum rembingi slepptum þá rímar þetta allt þó undarlega vel við örlög Frönsku byltingarinnar. Foringjar hennar urðu að víkja fyrir útrásarmanni allra tíma. Hérlendis hafa völdin færst frá Alþingi til Kaupþings, úr Stjórnarráði í Viðskiptaráð. Hinir nýju kóngar Íslands eru útrásarvíkingarnir. Þeirra er mátturinn og dýrðin. Þeir eiga landið og blöðin. Þeir standa í stöðugum landvinningum. Franska byltingin hófst með blóðbaði og þróaðist yfir í stríð á erlendum grundum. Íslenska byltingin hófst með bjórbaði en þróaðist yfir í innrásir og yfirtökur á erlendum grundum. Hver er þá okkar Napóleon? Það er spurning. Baráttan stendur enn. Hann gæti verið sá sem var í sjö síðna viðtali í Mogganum í gær. Og hann gæti verið sá sem seint mun þiggja sjö síðna gjöf frá Mogga. Hann gæti verið Hr. Novator Samsonarson eða Baugur Bónusson. Hann gæti líka verið hálfbróðir hins fyrrnefnda, Straumur Burðarás Samsonarson, eða náfrændi hins síðarnefnda, Hagar Gaumsson. Þá koma þeir Byko Bankason og Árvakur Símason einnig til greina, sem og þeir feðgar Glitnir Íslandsson og Össur Marel Glitnisson. Svo ekki sé minnst á þá félaga KB Bank og FL Group. En okkar Napóleon gæti líka verið kona: Alfesca Flaga Actavis, Bakkavör Bankadóttir eða Dagsbrún Baugsdóttir. Hásætið er laust og baráttan stendur sem hæst. Keisari okkar hefur enn ekki verið krýndur við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju að viðstöddum páfa og kardínálum kapítalismans. Árangurinn erlendis telur en ágangurinn innanlands tefur: Síðustu fulltrúar Búrbónanna sitja enn í háum heimastólum og kalla suma keisarakandídata í yfirheyrslur með reglulegu millibili á meðan aðrir eru í náðinni. Baráttan um krúnuna stendur því sem hæst. Við bíðum spennt og fylgjumst með. Og getum svosem alveg slakað á: Napóleon játaði sig ekki sigraðan fyrr en árið 1815. Það eru því níu ár í okkar Waterloo. Við eigum eftir tæpan áratug af gullöld okkar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Skoðanir Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Byltingardagurinn okkar er 1. mars. Þann dag árið 1989 þusti alþýðan út á götur borgarinnar og hellti sig fulla af nýfengnu frelsi: Bjórinn hafði verið leyfður. Bjórdagurinn er okkar Bastilludagur. Mannkynssagan á það til að endurtaka sig og þá stundum með skoplegum hætti. Við getum sagt að hér hafi það gerst með ögn saklausari hætti. Íslenska byltingin hafði sínar afleiðingar en hún var ekki blóðug. Ártölin stemma hinsvegar undarlega vel. Réttum tvö hundruð árum eftir að Parísarbúar réðust að Bastillu-fangelsinu skáluðu Reykvíkingar fyrir betri tíð. 1989 var ekki bara frelsisár Austur-Evrópu. Það tók Frönsku byltinguna þó nokkur ár að ganga endanlega frá gamla kerfinu, gamla konungdæminu. Loðvík XVI var ekki líflátinn fyrr en fjórum árum eftir Bastilludag. Rúmum fjórum árum eftir Bjórdaginn gekk Ísland í EES og gömlu höftin féllu eitt af öðru. Nýir siðir leystu þjóð úr læðingi. Byltingarforingjarnir hétu Davíð og Jón Baldvin. Ég ætla þó seint að líkja þeim við grimmhundana Danton og Robespierre. En rétt eins og foringjarnir frönsku misstu þeir völd sín og allir vita hver náði þeim. Byltingin át börnin sín en Napóleon át byltinguna. Frakkland varð keisaraveldi hvar einn maður réði öllu. Sumir halda því fram að keisaratíminn hafi verið gullöld Frakka. Aðrir benda á mannslífin sem hann kostaði. 19. öldin var hinsvegar óumdeilanlega nokkuð frönsk. Frakkar áttu heiminn. Allt frá Washington til Pétursborgar þótti fínt að tala frönsku. Skáldsögur Tolstois eru jafn fullar af frönskum frösum og skáldsögur nútímans eru af enskum. Frönsk orð smugu inn í flest tungumál heimsins. Sígaretta, lonníettur, karafla... (oftast heiti á einhverju spjátringapjátri). Á þessum tíma voru Frakkar í stöðugri útrás. Napóleon flaug til Rómar, Vínar og Brussel í hverri viku til frekari landvinninga. Árangur hans í útlöndum tryggði hásætið heima. Og smám saman var gengið frá gamla aðlinum, Búrbónunum. Það tók okkur Íslendinga reyndar ögn lengur að ganga frá „fjölskyldunum fjórtán" - Kolkrabbinn var ekki afhausaður fyrr en eftir aldamót - og seint verður sjálfsagt talað um 21. öldina sem „íslensku öldina". Þó hefur fyrsta íslenska orðið, „skyr", nú hafið innrás sína í tungumál heimsins og kannski endar öldin á því að hugtök eins og „sólarfrí" og „júróvisjónpartý" verði notuð jafnt í Pétursborg og Washington. En að öllum rembingi slepptum þá rímar þetta allt þó undarlega vel við örlög Frönsku byltingarinnar. Foringjar hennar urðu að víkja fyrir útrásarmanni allra tíma. Hérlendis hafa völdin færst frá Alþingi til Kaupþings, úr Stjórnarráði í Viðskiptaráð. Hinir nýju kóngar Íslands eru útrásarvíkingarnir. Þeirra er mátturinn og dýrðin. Þeir eiga landið og blöðin. Þeir standa í stöðugum landvinningum. Franska byltingin hófst með blóðbaði og þróaðist yfir í stríð á erlendum grundum. Íslenska byltingin hófst með bjórbaði en þróaðist yfir í innrásir og yfirtökur á erlendum grundum. Hver er þá okkar Napóleon? Það er spurning. Baráttan stendur enn. Hann gæti verið sá sem var í sjö síðna viðtali í Mogganum í gær. Og hann gæti verið sá sem seint mun þiggja sjö síðna gjöf frá Mogga. Hann gæti verið Hr. Novator Samsonarson eða Baugur Bónusson. Hann gæti líka verið hálfbróðir hins fyrrnefnda, Straumur Burðarás Samsonarson, eða náfrændi hins síðarnefnda, Hagar Gaumsson. Þá koma þeir Byko Bankason og Árvakur Símason einnig til greina, sem og þeir feðgar Glitnir Íslandsson og Össur Marel Glitnisson. Svo ekki sé minnst á þá félaga KB Bank og FL Group. En okkar Napóleon gæti líka verið kona: Alfesca Flaga Actavis, Bakkavör Bankadóttir eða Dagsbrún Baugsdóttir. Hásætið er laust og baráttan stendur sem hæst. Keisari okkar hefur enn ekki verið krýndur við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju að viðstöddum páfa og kardínálum kapítalismans. Árangurinn erlendis telur en ágangurinn innanlands tefur: Síðustu fulltrúar Búrbónanna sitja enn í háum heimastólum og kalla suma keisarakandídata í yfirheyrslur með reglulegu millibili á meðan aðrir eru í náðinni. Baráttan um krúnuna stendur því sem hæst. Við bíðum spennt og fylgjumst með. Og getum svosem alveg slakað á: Napóleon játaði sig ekki sigraðan fyrr en árið 1815. Það eru því níu ár í okkar Waterloo. Við eigum eftir tæpan áratug af gullöld okkar.