Næsta sumar eða haust kemur á hvíta tjaldið tónleikamynd með hljómsveitinni U2 í þrívídd. Verið er að vinna úr rúmlega 700 klukkutímum af efni sem var tekið upp á Vertigo-tónleikaferð sveitarinnar um Suður-Ameríku í febrúar og mars síðastliðnum.
Um verður að ræða fyrstu þrívíddarmyndina tekna upp á tónleikum sem verður sýnd í bíó.
Myndin mun notast við sömu Real D-tækni sem kvikmyndahús hafa notað við sýningar á mynd Tims Burton, The Nightmare Before Christmas, sem nýverið kom út í þrívíddarútgáfu.
Leikstjórar myndarinnar eru Mark Pellington og Catherine Owens. Pellington hefur áður leikstýrt myndinni Arlington Road. Hóf hann feril sinn með því að taka upp myndband fyrir U2 við lagið One.