Ennþá dýrari sérdrægni 8. nóvember 2006 00:01 Fáir hefðu líklega trúað því fyrir fáum árum að mál gætu skipast á þann veg að forseti Bandaríkjanna, sem í heimalandi sínu er oft kallaður leiðtogi hins frjálsa heims, nyti lítið meira trausts víða í hinum frjálsa heimi en gölnustu leiðtogar jarðar. Skoðanakannanir víða í Evrópu koma lítið betur út fyrir George Bush en Kim Yong Il og Ahmadinedjad og margir virðast álíta forseta Bandaríkjanna hættulegri heimsfriðnum en þá félaga. Í leit að skýringum á þessari sérkennilegu stöðu staldra menn eðlilega við innrásina í Írak enda flestum löngu ljósar blekkingar, hroki og heimska í kringum það mál. Einhverjar undantekningar eru þó raunar frá því og ekki svo langt síðan íslenskur ráðherra sagði að það væri hvergi nema á Íslandi sem menn ræddu aðdraganda innrásarinnar. Umræðan á Íslandi um þessi efni hefur þvert á móti verið að flestu leyti lík umræðu annars staðar í Evrópu. Það er þó eitt atriði í umræðunni um gjána á milli Bandaríkjanna og Evrópu sem hefur verið öllu meira rætt víða í álfunni en á Íslandi. Menn gleyma því stundum að ein meginástæða þeirrar almennu og ríku andúðar sem finna má í Evrópu á stjórn Bandaríkjanna hefur ekkert sérstaklega með Miðausturlönd að gera. Klofningurinn á milli Evrópu og Bandaríkjanna byrjaði ekki vegna Íraks eða Palestínu, heldur vegna gerólíkrar afstöðu til alþjóðlegrar samvinnu almennt og til samvinnu í umhverfismálum sérstaklega. Umhverfismál eru rædd af miklum þunga á Íslandi um þessar mundir en sú umræða er dálítið ólík umræðunni í Evrópu að því leyti að á Íslandi ræða menn mest, og af augljósum ástæðum, um að bjarga óspilltri náttúru. Í Evrópu snúast umræður um umhverfismál núorðið mest um hlýnun jarðar. Þær umræður verða sífellt fyrirferðarmeiri enda fjölgar þeim ört sem telja þetta alvarlegasta viðfangsefni mannkyns. Stjórn Bandaríkjanna hafnaði Kýótósáttmálanum tveimur árum fyrir innrásina í Írak. Í heimsókn til Evrópu sagðist Bush ekki geta tekið þátt í neinum aðgerðum í umhverfismálum sem gætu skaðað efnahag Bandaríkjanna. Þar sem Bandaríkin eru ábyrg fyrir miklu meiri mengun en nokkuð annað ríki jarðar hefur Evrópumönnum þótt sem Bandaríkin sýni öldungis ótrúlegt ábyrgðarleysi í þessum efnum. Þessi afstaða leiddi líka í ljós að heimsmynd stjórnvalda í Washington var í mörgum grundvallaratriðum önnur en mynd manna í Evrópu. Eitt er að stjórnin Bandaríkjanna hefur gert allt sem hún hefur getað til gera kenningar um hlýnun jarðar tortryggilegar en Evrópumenn telja löngu ljóst að þarna sé um að ræða einhverja mestu vá sem steðjað hefur að mannkyninu. Annað er að í Evrópu er það djúp og almenn sannfæring að flest stærstu vandamál heimsins séu þess eðlis að þau verði ekki leyst nema með víðtækri alþjóðlegri samvinnu. Stjórn Bandaríkjanna hefur tekið þveröfuga afstöðu, rift milliríkjasamningum og neitað staðfestingu annarra. Hún hefur líka beinlínis rekið baráttu gegn alþjóðlegri samvinnu á mikilvægum sviðum eins og sést til dæmis á baráttu hennar gegn alþjóðlegum stríðsglæpadómstól, eflingu alþjóðastofnana, alþjóðlegu átaki gegn losun gróðurhúsalofttegunda og alþjóðlegum sáttmálum um vopn. Ein meginlexían sem margir í Evrópu lærðu af árásinni á New York var sú að pólitísk vandamál væru alþjóðleg í eðli sínu og gætu haft bein áhrif hvar sem væri á hnettinum. Niðurstaða manna var almennt sú að líta þyrfti til þeirra aðstæðna sem sköpuðu þessi vandamál því þýðingarlaust væri að berjast gegn þeim með hernaði eða lokun landamæra. Þetta er líka ein af ástæðum þess að umhverfismál hafa þokast enn ofar á dagskrá evrópskra stjórnmála. Hlýnun jarðar er þegar farin að valda pólitískum vandamálum sem virða ekki landamæri. Sívaxandi straumur flóttamanna frá Afríku til Evrópu á sér til dæmis að hluta til rætur í breyttu veðurfari sem veldur langvarandi þurrkum. Margir telja líka að fjöldamorðin í Darfur eigi sér rætur í þessu. Auðvelt er að benda á enn stærri vandamál sem virðast í uppsiglingu í Norður-Afríku, Mið-Austurlöndum, Austur-Asíu og á Indlandsskaga svo dæmi séu nefnd. Þeirri skoðun vex líka fylgi í Evrópu að þótt heimurinn þurfi að greiða hátt verð fyrir einsýni Bandaríkjanna í Miðausturlöndum verði kostnaðurinn af skammsýni í umhverfismálum öllu meiri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Ormur Halldórsson Skoðanir Mest lesið Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun Með utanríkisstefnu í molum – stefnir Ísland í stríð við Íran? Ingólfur Shahin Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Halldór 04.01.2025 Halldór Heiður í tölum Gunnar Smári Egilsson Skoðun Harmleikurinn í Úkraínu: Svör við nokkrum spurningum Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Tölum endilega um staðreyndir Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Fáir hefðu líklega trúað því fyrir fáum árum að mál gætu skipast á þann veg að forseti Bandaríkjanna, sem í heimalandi sínu er oft kallaður leiðtogi hins frjálsa heims, nyti lítið meira trausts víða í hinum frjálsa heimi en gölnustu leiðtogar jarðar. Skoðanakannanir víða í Evrópu koma lítið betur út fyrir George Bush en Kim Yong Il og Ahmadinedjad og margir virðast álíta forseta Bandaríkjanna hættulegri heimsfriðnum en þá félaga. Í leit að skýringum á þessari sérkennilegu stöðu staldra menn eðlilega við innrásina í Írak enda flestum löngu ljósar blekkingar, hroki og heimska í kringum það mál. Einhverjar undantekningar eru þó raunar frá því og ekki svo langt síðan íslenskur ráðherra sagði að það væri hvergi nema á Íslandi sem menn ræddu aðdraganda innrásarinnar. Umræðan á Íslandi um þessi efni hefur þvert á móti verið að flestu leyti lík umræðu annars staðar í Evrópu. Það er þó eitt atriði í umræðunni um gjána á milli Bandaríkjanna og Evrópu sem hefur verið öllu meira rætt víða í álfunni en á Íslandi. Menn gleyma því stundum að ein meginástæða þeirrar almennu og ríku andúðar sem finna má í Evrópu á stjórn Bandaríkjanna hefur ekkert sérstaklega með Miðausturlönd að gera. Klofningurinn á milli Evrópu og Bandaríkjanna byrjaði ekki vegna Íraks eða Palestínu, heldur vegna gerólíkrar afstöðu til alþjóðlegrar samvinnu almennt og til samvinnu í umhverfismálum sérstaklega. Umhverfismál eru rædd af miklum þunga á Íslandi um þessar mundir en sú umræða er dálítið ólík umræðunni í Evrópu að því leyti að á Íslandi ræða menn mest, og af augljósum ástæðum, um að bjarga óspilltri náttúru. Í Evrópu snúast umræður um umhverfismál núorðið mest um hlýnun jarðar. Þær umræður verða sífellt fyrirferðarmeiri enda fjölgar þeim ört sem telja þetta alvarlegasta viðfangsefni mannkyns. Stjórn Bandaríkjanna hafnaði Kýótósáttmálanum tveimur árum fyrir innrásina í Írak. Í heimsókn til Evrópu sagðist Bush ekki geta tekið þátt í neinum aðgerðum í umhverfismálum sem gætu skaðað efnahag Bandaríkjanna. Þar sem Bandaríkin eru ábyrg fyrir miklu meiri mengun en nokkuð annað ríki jarðar hefur Evrópumönnum þótt sem Bandaríkin sýni öldungis ótrúlegt ábyrgðarleysi í þessum efnum. Þessi afstaða leiddi líka í ljós að heimsmynd stjórnvalda í Washington var í mörgum grundvallaratriðum önnur en mynd manna í Evrópu. Eitt er að stjórnin Bandaríkjanna hefur gert allt sem hún hefur getað til gera kenningar um hlýnun jarðar tortryggilegar en Evrópumenn telja löngu ljóst að þarna sé um að ræða einhverja mestu vá sem steðjað hefur að mannkyninu. Annað er að í Evrópu er það djúp og almenn sannfæring að flest stærstu vandamál heimsins séu þess eðlis að þau verði ekki leyst nema með víðtækri alþjóðlegri samvinnu. Stjórn Bandaríkjanna hefur tekið þveröfuga afstöðu, rift milliríkjasamningum og neitað staðfestingu annarra. Hún hefur líka beinlínis rekið baráttu gegn alþjóðlegri samvinnu á mikilvægum sviðum eins og sést til dæmis á baráttu hennar gegn alþjóðlegum stríðsglæpadómstól, eflingu alþjóðastofnana, alþjóðlegu átaki gegn losun gróðurhúsalofttegunda og alþjóðlegum sáttmálum um vopn. Ein meginlexían sem margir í Evrópu lærðu af árásinni á New York var sú að pólitísk vandamál væru alþjóðleg í eðli sínu og gætu haft bein áhrif hvar sem væri á hnettinum. Niðurstaða manna var almennt sú að líta þyrfti til þeirra aðstæðna sem sköpuðu þessi vandamál því þýðingarlaust væri að berjast gegn þeim með hernaði eða lokun landamæra. Þetta er líka ein af ástæðum þess að umhverfismál hafa þokast enn ofar á dagskrá evrópskra stjórnmála. Hlýnun jarðar er þegar farin að valda pólitískum vandamálum sem virða ekki landamæri. Sívaxandi straumur flóttamanna frá Afríku til Evrópu á sér til dæmis að hluta til rætur í breyttu veðurfari sem veldur langvarandi þurrkum. Margir telja líka að fjöldamorðin í Darfur eigi sér rætur í þessu. Auðvelt er að benda á enn stærri vandamál sem virðast í uppsiglingu í Norður-Afríku, Mið-Austurlöndum, Austur-Asíu og á Indlandsskaga svo dæmi séu nefnd. Þeirri skoðun vex líka fylgi í Evrópu að þótt heimurinn þurfi að greiða hátt verð fyrir einsýni Bandaríkjanna í Miðausturlöndum verði kostnaðurinn af skammsýni í umhverfismálum öllu meiri.
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun