Útgáfutónleikar söngkonunnar Guðrúnar Árnýjar verða haldnir í Fríkirkjunni í Reykjavík í kvöld klukkan 20.00. Þar flytur Guðrún lög af fyrstu sólóplötu sinni, Eilíft augnablik, sem kom út nú í vikunni.
Einvalalið hljóðfæraleikara leikur undir á tónleikunum, m.a. fjögurra manna strengjasveit. Ásamt Guðrúnu koma fram þeir Jón Jósep Sæbjörnsson og Edgar Smári Atlason en báðir syngja þeir dúetta með henni á nýju plötunni. Þess má geta að um undirleik á plötunni sér Sinfóníuhljómsveitin í Bratislava ásamt landsliði íslenskra hljóðfæraleikara. Miðasala á tónleikana fer fram á frostid.is og í verslunum Skífunnar.