Tónleikaferð bresku rokkaranna í The Rolling Stones, A Bigger Bang, er tekjuhæsta tónleikaferð sögunnar að sögn bandaríska tímaritsins Billboard.
Síðan í ágúst á síðasta ári hefur hljómsveitin náð inn rúmum þrjátíu milljörðum króna. Alls hafa tónleikarnir verið 110 og áhorfendur 3,5 milljónir.
Írska hljómsveitin U2 átti fyrra metið yfir aðsóknarmestu tónleikaferðina. Náði Vertigo-túrinn inn um 26 milljörðum króna.
Ýmislegt hefur gengið á hjá Stones meðan á tónleikaferðinni hefur staðið. Gítarleikarinn Keith Richards féll úr tré á Fiji-eyjum og fór í heilaskurðaðgerð, auk þess sem söngvarinn Mick Jagger hefur átt við barkabólgu að stríða. Mörgum tónleikum hefur verið frestað af þessum sökum en það virðist ekki hafa haft áhrif á aðsóknartölur. Auk þess varð Jagger fyrir áfalli þegar faðir hans, Joe, lést fyrir tveimur vikum.