Viðskipti innlent

Hagnaður Mosfellsbæjar 514 milljónir

Mynd/GVA
Mosfellsbær var rekinn með 514 milljón króna hagnaði á síðasta ári samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta í ársreikningum bæjarins. Rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 542 millj.kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Fyrir fjármagnsliði var rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 680 millj.kr. á móti 600 millj.kr. í A hluta.

Í ársreikningum Mosfellsbæjar, sem lagðir verða fyrir bæjarráð í dag og vísað til bæjarstjórnar, kemur fram að eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2005 nam 1.840 millj.kr. samkvæmt efnahags­reikningi. Þar af nam eigið fé A hluta 1.304 millj.kr. Eiginfjárhlutfall hækkar milli ársloka 2004 og 2005 úr 25% í 33% og í A hluta úr 18% í 29%.

Í tilkynningu frá Mosfellsbæ kemur fram að rekstur sveitarfélagsins hafi gengið mjög vel á síðasta ári og var umtalsvert betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun sem samþykkt var af bæjarstjórn í desember 2004. Gildir einu hvort með eru taldar 392 milljón krónur í tekjur af sölu byggingaréttar eða ekki.

Þá kemur jafnframt fram í ársreikningum Mosfellsbæjar að þann 1. desember 2005 hafi íbúar bæjarins verið 7.157 talsins og fjölgað um 5,5% á árinu. Skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa í A hluta sveitarsjóðs lækkuðu á árinu um 54.000 kr. og voru í árslok 448.000 á meðan eignir hækkuðu um 16.000 kr. á hvern íbúa og námu 630.000 kr. á hvern íbúa. Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir að íbúar verði rétt rúmlega 10 þúsund í ársbyrjun 2010.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×