Viðskipti innlent

Talsverðar lækkanir á hlutabréfamarkaði

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 2,3 prósent í gær og um 4 prósent það sem af er degi. Þrátt fyrir það nemur hækkun vísitölunnar frá áramótum 5,6 prósentum, sem samsvarar 24 prósenta hækkun uppreiknað á ársgrundvelli, að sögn greiningardeildar Glitnis. Telst það mjög góð ávöxtun. Bréf í bönkum og FL Group hefur lækkað mest.

Þar segir jafnframt að heimfæra megi lækkunina alfarið upp á titring meðal fjárfesta vegna erlendra greiningarskýrslna, sem hafi birst að undanförnu. Skýrsluhöfundar hafi almennt farið gagnrýnum orðum um íslensku bankana og efnahagslíf hér á landi. „Svörtustu dómsdagsspár nokkurra skýrsluhöfunda gera ráð fyrir efnahagskreppu á næstu árum og að bankarnir kunni að lenda í alvarlegum vandræðum við fjármögnun og geti hugsanlega ekki staðið við skuldbindingar sínar," segir greiningardeildin.

Bankarnir hafa svarað fyrir sig með því að gefa út greinargerðir þar sem fram kemur að fjárhagsstaða þeirra og áhættustýring sé með ágætum. Hafi greiningardeildir bankanna og opinberir aðilar bent á rangfærslur, vanþekkingu og óvönduð vinnubrögð nokkurra skýrsluhöfunda. Segir greiningardeildin að hún hafi áður bent á að helstu breytingar varði rekstur flestra fyrirtækja þær að gengi krónunnar hefur lækkað. Áhrif þessa eru hins vegar almennt mjög jákvæð á rekstur fyrirtækjanna, vegna mikilla umsvifa erlendis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×