Viðskipti innlent

Vöruskiptin óhagstæð um 13,4 milljarða

Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 13,4 milljarða króna í mars. Vörur voru fluttar út fyrir 19,9 milljarða króna en inn fyrir 33,3 milljarða króna. Í mars í fyrra var vöruskiptajöfnuðurinn óhagstæður um 6,3 milljarða á föstu gengi.

Fyrstu þrjá mánuði ársins voru vörur fluttar út fyrir 48,8 milljarða króna en inn fyrir 80,7 milljarða króna. Vöruskiptahalli við útlönd nam tæpum 32 milljörðum króna en á sama tíma í fyrra var hann óhagstæður um 15,3 milljarða króna á sama gengi, að sögn Hagstofunnar. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 16,7 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Verðmæti vöruútflutnings á fyrsta ársfjórðungi 2006 var 2,5 milljörðum meira en á sama tíma fyrir ári. Nemur aukningin 5,4 prósentum. Sjávarafurðir voru 58 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,6 prósentum meira en á sama tíma í fyrra. Útfluttar iðnaðarvörur voru 38 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 12,4 prósentum meira en á sama tíma árið áður, aðallega vegna aukins álútflutnings.

Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu þrjá mánuði ársins var 19,2 milljörðum króna meira en á sama tímabili í fyrra en aukningin nemur 31,1 prósenti. Mest varð aukning í innflutningi á fjárfestingavöru og hrá- og rekstrarvöru. Á móti kom samdráttur í innflutningi flugvéla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×