Viðskipti innlent

Húsnæðisverð hækkar enn

Mynd/Hari

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1 prósent á milli mars og apríl. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,7 prósent en verð á sérbýli hækkaði um 2,5 prósent á milli mánaða.

Greiningardeild Glitnis banka segir að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað geysilega frá því bankarnir hófu innreið sína á íbúðalánamarkað eða um 54 prósent frá því í ágúst 2004. Þó hafi dregið úr verðhækkunum íbúða á síðustu mánuðum þótt enn sé veruleg hækkun á markaðinum.

Verð á fjölbýli hefur hækkað um 16 prósent en sérbýli um 22 prósent á síðastliðnum 12 mánuðum, að sögn bankans, sem telu ólíklegt að framhald verði á þessari þróun. Ástæðan er m.a. sú að framundan er mikið framboð íbúða enda hafi byggingarstarfsi verið verulega arðsöm á síðustu misserum.

Þá býst bankinn við að draga muni úr eftirspurn íbúða vegna hærri vaxta á íbúðalánum og minna aðgengi að fjármagni en áður.

Þá er búist við að kaupmáttur almennings skerðist þessa dagana vegna vaxandi verðbólgu og er búist við að það muni halda áfram á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×