Viðskipti innlent

Tap Spalar 81 milljón

Mynd/Pjetur

Spölur ehf., sem rekur Hvalfjarðargöng, tapaði 81 milljón króna á sex mánaða tímabili frá 1. október í fyrra til 31. mars á þessu ári. Tapið á sama tíma í fyrra og hitteðfyrra nam 188 milljónum króna. Í sex mánaða uppgjör fyrirtækisins kemur fram að tap á öðrum ársfjórðungi fyrirtækisins, frá 1. janúar á þessu ári til 31. mars síðastliðins, nam 63 milljónum króna. Á sama tíma í fyrra nam það 326 milljónum króna. 730 þúsund ökutæki fóru í gegnum Hvalfjarðargöng á tímabilinu.

Reikningsár Spalar ehf. er frá 1. október til 30. september ár hvert.

Í sex mánaða uppgjörinu kemur fram að veggjald í Hvalfjarðargöng hafi numið 382 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins en til samanburðar nam það 407 milljónum króna. Er því um 6 prósenta lækkun að ræða á milli ára.

Rekstrarkostnaður án afskrifta nam 97 milljónum króna. Hann var 92 milljónir króna á sama tímabili í fyrra og nemur hækkunin 5,4 prósentum.

Þá jukust skuldir Spalar ehf. úr 4,8 milljörðum króna þann 30. september 2005 í rúma 5 milljarða þann 31. mars á þessu ári og nemur hækkunin 5,5 prósentum.

Haft er eftir Gylfa Þórðarsyni, framkvæmdastjóra félagsins, í tilkynningu, að heildarafkoman hafi verið í takt við áætlanir félagsins og séu umferðarmestu mánuðir ársins framundan sem að alla jöfnu muni skila mestum tekjum.

Á þessu sex mánaða tímabili fóru 730.000 ökutæki um Hvalfjarðargöng. Það er 18 prósenta aukning frá fyrra ári og jafngildir því að 4.000 ökutæki hafi farið um göngin á hverjum degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×