Viðskipti innlent

Skýrr og Teymi sameinast

Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr hf.
Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr hf. Mynd/GVA
Ákveðið hefur verið að Skýrr hf. og Teymi ehf. verði sameinuð undir nafni Skýrr hf. Formlegur sameiningardagur hefur ekki enn verið ákveðinn. Skýrr og Teymi eru dótturfélög Kögunar hf. sem er í meirihlutaeigu Dagsbrúnar hf., en Dagsbrún er skráð í Kauphöll Íslands.

Haft er eftir Þórólfi Árnasyni, forstjóra Skýrr hf. að með þessu stórefli Skýrr þjónustu sína á sviði Oracle-lausna og öðlist ný sóknarfæri á markaði. „Einnig fáum við með samrunanum frábært fólk til liðs við okkur sem mikill fengur er í," segir Þórólfur.

„Teymi hefur um langt árabil átt náið samstarf við Skýrr. Fyrirtækin hafa lengi verið í eigu sömu aðila og deilt húsnæði. Samlegðaráhrif eru því mikil. Grunntæknilausnir Oracle verða nú seldar og þjónustaðar af ennþá öflugri aðila en fyrr og viðskiptavinir Teymis ættu því að fagna þessari sameiningu,"segir Sigþór Samúelsson, framkvæmdastjóri Teymis.

Fyrirhugað er að Teymi verði hluti af Viðskiptalausnum Skýrr sem sérstakur hópur undir stjórn Sigþórs Samúelssonar. Framkvæmdastjóri Viðskiptalausna Skýrr er Eiríkur Sæmundsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×