Innlent

Þarf að hreinsa andrúmsloftið í kringum orkusamninga

MYND/Valgarður

Það þarf að hreinsa andrúmsloftið í kringum fjárfestingar við Kárahnjúkavirkjun og því er mikilvægt að aflétta trúnaði af orkusölusamningi við Alcoa. Þetta segir Helgi Hjörvar, þingmaður og stjórnarmaður í Landsvirkjun, sem ætlar að leggja fram tillögu þar að lútandi á næsta stjórnarfundi Landsvirkjunar.

Upplýsingar um orkuverð til Alcoa vegna álversins í Reyðarfirði birtust á heimasíðu fyrirtækisins á dögunum. Þar kom fram að orkuverðið væri helmingi lægra á Íslandi en í Brasilíu, eða 15 dollarar á megavattsstund sem er átta sinnum minna en almenningur á Íslandi greiðir fyrir orkuna. Þessu hafa forsvarsmenn Landsvirrkjunar mótmælt og segja það nær 30 dollurum eins og verð á álmarkaði sé nú.

Blaðamaður í Brasilíu, sem vann greinina um orkuverðið sem endurbirt var á heimasíðu Alcoa, hefur hins vegar sagt að upplýsingarnar séu komnar frá forstjóra Alcoa, Alain Belda. Ekki er hægt að fá upplýsingar um orkuverðið nú þar sem trúnaður á að ríkja um það milli Landsvirkjunar og Alcoa. Helgi Hjörvar, þingmaður og fulltrúi í stjórn Landsvirkjunar, vill hins vegar aflétta honum og vísar til þess að forstjóri Alcoa hafi í raun gert það nú þegar.

Helgi segir að hann sjái ekki að stjórnendur Landsvirkjunar geti setið undir því að þeir hafi náð helmingi lélegra orkuverði í samningum við sama fyrirtæki og menn séu að gera samninga við í Suður-Ameríku. Þess vegna ætli hann að hvetja stjórnendur Landsvirkjunar til að létta leyndinni af samningunum því það þurfi að hreinsa andrúmsloftið í kringum Kárahnjúkavirkjun og fjárfestingar þar.

Helgi hyggst leggja fram tillögu þar um á næsta fundi stjórnar Landsvirkjunar. Hann segir ekki sé hægt til lengdar að leyna almenningi því hvað í þeim felist. Hann býst við góðum undirtektum í stjórninni. Hann hafi sjálfur á sínum tíma verið andvígu gerð samninganna en hann haldi að það séu hagsumir þeirra sem hafi gert þá og stutt þá að það sé sýnt hvaða orkuverð sé í gangi og þá muni menn njóta þess að álverð sé mjög hátt um þessar mundir og auðvitað njóti fyrirtækið góðs af því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×