Innlent

Ríkisstjórnin bakkar ekki segir samgönguráðherra

MYND/Vísir

Ríkisstjórnin ætlar ekki að bakka með frestun vegaframkvæmda ef það verður til þess að verðbólgan fari af stað. Þetta segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra.

Ríkisstjórnin tilkynnti í síðustu viku að gripið yrði til víðtækra aðgerða til að draga úr þenslu. Í því felst meðal annars að fresta tímabundið útboðum og upphafi nýrra framkvæmda á vegum ríkisins. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var gestur í hádegisviðtalinu á NFS í dag þar sem hann var spurður hvers vegna ekki hafi verið gripið fyrr til þessara aðgerða. Hann svaraði því til að alltaf sé hægt að segja sem svo að það hefði þurft að gera. Ríkisstjórnin hafi m.a. verið að vonast eftir því að menn áttuðu sig á því, t.d. í stjórnum sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins, að það sé ekki skynsamlegt að fara fram með þeim hætti sem gert hafi verið í byggingamálum þar.

Meðal þeirra framkvæmda sem frestað er með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar eru vegaframkvæmdir á Norðausturlandi og á Vestfjörðum. Samgönguráðherra segir það alveg liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að aðeins sé um frestun að ræða - ekki sé verið að hætta við umræddar framkvæmdir. Spurningin sé bara hversu hratt tekst að ná niður verðbólgunni. Það takist hins vegar ekki nema sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, bankarnir og atvinnulífið komi þar að málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×