Viðskipti innlent

Landsvirkjun semur við TM Software

Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins.

Landsvirkjun hefur gert samning við TM Software um uppsetningu símstöðva og búnaðar sem byggist á nýjustu IP-símatækni fyrir skrifstofu Landsvirkjunar á Akureyri, í Laxárstöð og Fljótsdalsstöð, Kárahnjúkum. Í verkinu felst meðal annars forritun, uppsetning, prófanir og kennsla á IP-símstöðvarnar og símabúnaðinn sem þeim tilheyrir.

Í tilkynningu frá TM Software kemur fram að IP-símatæknin feli í sér að öll samskipti fari fram í gegnum Netið hvort heldur notaðir eru hefðbundnir borðsímar, farsímar eða tölvur. Það eina sem þurfi er nettenging og skipti ekki máli hvort starfsmaðurinn sem ná þarf í er staddur í Kárahnjúkum eða í Reykjavík.

Haft er eftir Óskari H. Valtýssyni, fjarskiptastjóra Landsvirkjunar, að það sé mikið framfaraskref fyrir Landsvirkjun að taka IP-tæknina í sína þjónustu. „Þetta gerir okkur mun auðveldara að tengja saman starfsstöðvar Landsvirkjunar auk þess sem símakostnaður mun lækka og sveigjanleiki aukast. Nú er það Netið sem er samtengipunkturinn í stað símalína áður," segir Óskar.

„TM Software hefur mikla reynslu í innleiðingu, rekstri og þjónustu á síma- og netkerfum og meðal viðskiptavina okkar eru mörg stærstu fyrirtæki landsins. Landsvirkjun er mjög ánægjuleg viðbót við núverandi viðskiptahóp," segir Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri hjá TM Software.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×