Viðskipti innlent

Methagnaður hjá Sparisjóði Keflavíkur

Merki Sparisjóðs Keflavíkur.
Merki Sparisjóðs Keflavíkur. Mynd/Páll

Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík á fyrstu sex mánuðum ársins nam rúmum einum milljarði króna en það er 106.6 prósenta aukning frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir skatta nam tæpum 1,2 milljarði króna. Þetta er mesti hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík á einum árshelmingi og er arðsemi eiginfjár 55 prósent sem er ein sú mesta frá stofnun sjóðsins.

Í tilkynningu frá Sparisjóðnum segir að vaxtatekjur á fyrri hluta ársins hafi numið rúmið 2,7 milljörðum króna, sem er 124 prósenta hækkun frá sama tímabili á síðasta ári.

Þá námu vaxtagjöld tæpum 2,4 milljörðum króna, sem er 214 prósenta hækkun á milli ára. Hreinar vaxtatekjur námu 393,4 milljónum króna samanborið við 480,0 m.kr. á sama tímabili árið áður.

Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns var 2,3 prósent á tímabilinu en 3,52 prósent á sama tímabili árið áður.

Aðrar rekstrartekjur jukust um 749,7 milljónir króna og voru 1.46 milljarðar króna á tímabilinu.

Laun og launatengd gjöld jukust um 15,6 prósent og annar almennur rekstrarkostnaður jókst um 24,8 prósent.

Heildarinnlán í Sparisjóðnum ásamt lántöku námu í lok júní 29,4 milljörðum króna og er það 18 prósenta aukning á tímabilinu.

Í lok tímabilsins var niðurstöðutala efnahagsreiknings tæpir 38 milljarðar króna er það tæplega 6,2 milljarða króna hækkun á tímabilinu. Eigið fé Sparisjóðsins í júnílok nam 4,6 milljörðum króna og hefur eigið fé aukist um 898,6 milljónir króna eða 23,9 prósent. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum er 10,45 prósent en var 11,97 prósent á sama tíma árið áður.

Áætlanir benda til að afkoman verði góð á árinu 2006, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sparisjóðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×