Innlent

Vill viðræður um myndun kosningabandalags

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, vill viðræður við hina stjórnarandstöðuflokkana um myndun kosningabandalags til þess að koma núverandi ríkisstjórn frá í komandi þingkosningum.

Þetta kom fram í viðtali við hann á NFS í dag vegna flokkráðsfundar Vinstri - grænna sem hófst nú klukkan fimm. Þar á meðal annars að ræða samstarfsmöguleika við aðra stjórnmálaflokka.

Steingrímur benti þó á að Vinstri - græn réðu þessu ekki ein og þetta réðist af því hvort sæmileg samstilling tækist meðal flokkanna þriggja. Vinstri - græn væru tilbúin til viðræðna um slíkt. Hann hafi lagt sjálfan sig undir í því.

Steingrímur segist hafa talað mjög skýrt í þessum efnum en ef slík viljayfirlýsing náist ekki og Samfylkingin velji að ganga óbundin til kosninga þá útiloki Vinstrihreyfingin - grænt framboð engan samstarfskost enda sé það ekkert óskaplega mikill munur á því við hvern hinna flokkanna Vg semji. Flokkurinn hafi sérstöðu og sé sá eini sem ekki geri kröfu um að vera inni á miðjunni heldur sé hann til vinstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×