Viðskipti innlent

Landsframleiðsla jókst umfram áætlanir

Hagstofa Íslands.
Hagstofa Íslands. Mynd/Stefán
Landsframleiðsla jókst að raungildi um 7,5 prósent á síðasta ári, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar yfir þjóðhagsreikninga á árinu. Í áætlun frá því í mars var gert ráð fyrir 5,5 prósenta hagvexti. Skýrist munurinn einkum af tekjum í útfluttri þjónustu en þær reyndust tæpum 10 milljörðum krónum meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Í bráðabirgðatölum Hagstofunnar kemur fram að þjóðartekjur á síðasta ári jukust nokkru meira en landsframleiðslan eða um 8,6 prósent. Það er vegna betri viðskiptakjara en á árinu á undan og vegna minni nettó vaxta- og arðgreiðslna til útlanda.

Hagstofan segir vöxt landsframleiðslunnar í fyrra hafi einkennst af mikilli fjárfestingu en hún jókst um 37,6 prósent auk þess sem einkaneysla jókst um 12,3 prósent. Þjóðarútgjöld jukust því langt umfram landsframleiðslu eða um 15,8 prósent. Hafi þetta leitt til viðskiptahalla sem nam um 161 milljarði króna eða 15,9 prósent af landsframleiðslu en það er methalli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×