Viðskipti innlent

TM boðar til hluthafafundar

Tryggingamiðstöðin.
Tryggingamiðstöðin.
Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) hefur ákveðið að boða til hluthafafundar þann 26. september næstkomandi til að fjalla um tillögu stjórnar TM um útgáfu nýrra hluta að nafnverði 157.894.737 króna eða um 16,9 prósent. TM gaf nýlega út víkjandi skuldabréf vegna kaupa á norska tryggingafélaginu Nemi Forsikring ASA.

Í tilkynningu frá TM til Kauphallar Íslands segir að lagt verði til að söluverð verði 38 krónur á hlut. Samið hefur verið við Glitni hf. um sölutryggingu fyrrgreindrar hlutafjáraukningar.

Í tilkynningunni segir ennfremur að matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) taldi skuldabréfaútgáfuna ekki svo úr garði gerða að hún fullnægði þeim kröfum sem S&P gerðu. Hafði þetta þau áhrif að matseinkunn Nemi lækkaði úr BBB í BBB-. Væntir TM þess að einkunn Nemi færist til fyrra horfs í kjölfar hlutafjáraukningar.

TM hefur eignast yfir 90 prósent hlutafjár í Nemi og hefst fljótlega innköllun á eftirstöðvum hlutfjárins í Noregi. Gert er ráð fyrir að TM taki við rekstri norska félagsins þegar því ferli lýkur eða innan 4 vikna.

Straumur -Burðaðrás hf., er ráðgjafi TM við kaupin á Nemi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×