Viðskipti innlent

Minna háðir innlendu efnahagsumhverfi

Úr greiningardeild banka.
Úr greiningardeild banka. Mynd/Valli

Matsfyrirtækið Fitch Ratings, sem metur lánshæfi opinberra aðila og fyrirtækja, segir í nýrri skýrslu að íslenska bankakerfið hafi tekið róttækum breytingum undanfarin ár og að bankarnir séu nú minna háðir innlendu efnahagsumhverfi en áður.

Greiningardeild Glitnis segir sérfræðinga Fitch telja þetta jákvæða þróun. Það hafi þó haft í för með sér ný vandamál og verkefni, sér í lagi hvað varði áhættustjórnun og samþættingu þeirra erlendu rekstrareininga sem keyptar hafi verið undanfarið.

Deildin segir að í nýútkominni skýrslu fyrirtækisins um íslenska fjármálakerfið sé nefnt að eignir bankanna hafi fimmfaldast á undanförnum þremur árum og að rekstur þeirra byggist nú á alþjóðlegri fjármögnun fremur en innlendri. Þessi fjármögnunarleið sé mjög háð andrúmslofti á markaðinum.

Í skýrslunni er stuttlega farið yfir efnahagsþróun hérlendis og ástæður fyrir breytingu á mati Fitch á horfum fyrir lánshæfi íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar. Segir Fitch lánshæfismat ríkisins í framtíðinni velta á því hversu hratt núverandi ójafnvægi í hagkerfinu gangi til baka og með hvaða hætti aðlögunin verður. Þá telji Fitch samræmi í stjórn ríkisfjármála og peningamálastjórn ábótavant en það auki líkurnar á harðri lendingu hagkerfisins.

Fitch hefur enn sem fyrr áhyggjur af krosseignarhaldi íslenskra fyrirtækja en segja þó þróun hafna í þá átt að bæta þar úr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×