Viðskipti innlent

Hagnaður Nýherja 154 milljónir króna

Nýherji.
Nýherji.

Nýherji skilaði 154 milljónum króna hagnaði á þriðja fjórðungi ársins. Þetta er 149,7 milljónum krónum meira en á sama tíma í fyrra en þá nam hagnaður félagsins 4,3 milljónum króna.

Í tilkynningu frá Nýherja kemur fram að tekjur hafi numið rúmum 1,9 milljörðum króna á tímabilinu en þær voru tæpar 1,4 milljarðar króna fyrir ári og nemur aukningin 39,8 prósentum á milli ára.

Þá nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) 196,9 milljónum króna eða 10,3 prósentum af sölutekjum í þriðja ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra nam hann 2,2 prósentum.

Á þriðja fjórðungi ársins gerði Nýherji meðal annars samning um kaup á Tölvusmiðjunni ehf., sem hefur aðsetur í Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði á Austurlandi. Áætluð velta Tölvusmiðjunnar er um 120 milljónir króna á ári. Jafnframt hefur Nýherji opnað sölu- og þjónustuskrifstofu á Akureyri til að þjóna Norðurlandi.

Veruleg aukning varð í sölu á miðlægum búnaði, svo sem IP-símkerfum, geymslulausnum og netþjónum, en sömuleiðis í prent- og prentsmiðjubúnaði.

Þá segir í tilkynningunni að tekjur af hugbúnaði, þjónustu og ráðgjöf hafa vaxið mikið og nema þjónustutekjur nú um 42 prósentum af heildartekjum Nýherja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×