Tónlist

Heimsyfirráð eða dauði

Í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá því hljómsveitin Sykurmolarnir gaf út smáskífu með laginu AMMÆLI ætlar hljómsveitin að koma saman aftur og spila á einum tónleikum í Laugardalshöll föstudaginn 17. nóvember. Miðasala á tónleikana hefst á morgun - miðvikudaginn 25. október.

Allur ágóði af tónleikunum rennur til Smekkleysu sem hefur eins og alþjóð veit verið frá stofnun fyrirtækisins leiðandi í framleiðslu metnaðarfullra listaverka og útbreiðslu íslenskrar tónlistar um heimsbyggðina.

FL Group hefur ákveðið að styðja myndarlega við bakið á Sykurmolunum af þessu tilefni, enda má með nokkrum sanni segja að Sykurmolarnir og útgáfufyrirtæki þeirra, Smekkeleysa, hafi beint og óbeint verið undanfari útrásar íslenskra fyrirtækja. Það er mat Smekkleysu að framlag FL Group mun styrkja stoðir fyrirtækisins og efla til góðra verka í framtíðinni.

Miðasala hefst klukkan 10 í fyrramálið, miðvikudaginn 25. október, í verslunum Skífunnar Kringlunni og Smáralind, BT Akureyri, Selfossi og Egilstöðum og á Midi.is. Vert er að taka fram að Skífan á Laugaveginum er lokuð vegna breytinga og er því engin miðasala þar.

Miðaverð á tónleikana er 5.000 krónur, að viðbættu 350 kr miðagjaldi söluaðila, í stæði og 6.500 krónur (að viðbættu 440 kr miðagjaldi) í stúku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×