Viðskipti innlent

Afkoma Bakkavarar yfir væntingum

Mynd/Haraldur Jónasson

Bakkavör Group hf. skilaði 4,6 milljarða króna eða 34,9 milljóna punda hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er 68 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. Þá nam hagnaður félagsins 2 milljörðum króna eða 15 milljón pundum á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem er 70 prósenta aukning á milli ára. Hagnaðurinn á þriðja ársfjórðungi er 3 milljón pundum meira en greiningardeild KB banka hafði spáð.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að hagnaður Bakkavarar nam 6 milljörðum króna fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins og 2,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi.

Sala félagsins fyrstu níu mánuði ársins nam 116,7 milljörðum króna og 43,6 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi.

Rekstrarhagnaður nam 10,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðunum og 4,2 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi.

Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) nam 14,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðunum og jókst um 88 prósent milli tímabila. Þá nam EBITDA á þriðja ársfjórðungi 5,3 milljörðum króna, sem er 49 prósenta aukning.

Handbært fé frá rekstri fyrir skatta og vexti nam 16,2 milljörðum króna og frjálst fjárflæði frá rekstri var 9,1 milljarður króna. Hagnaður á hlut var 1,8 pens á fyrstu níu mánuðum ársins og jókst um 44 prósent miðað við sama tímabil í fyrra.

Þá nam eigið fé Bakkavarar Group 27,2 milljörðum króna í lok september samanborið við 16,7 milljarða króna í lok síðasta árs.

Haft er eftir Ágústí Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar Group, að afkoman endurspegli velgengni félagsins en tímabilið einkenndist af stöðugum vexti og áframhaldandi hagnaði. Afkoma félagsins í Kína er í takt við væntingar stjórnenda og við höldum áfram að leita áhugaverðra tækifæra í Asíu. Í dag kynnum við nýtt merki félagsins og um leið sameinast öll starfsemi okkar undir einu nafni, Bakkavör Group. Þetta endurspeglar styrk og einingu félagsins sem hefur aldrei verið betur í stakk búið til áframhaldandi vaxtar," segir Ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×