Lögreglan í Vík í Mýrdal fékk heldur óvenjulega tilkynningu á sunnudaginn var en þar var greint frá því að bifreið stæði á einni af flötunum á golfvellinum í Vík. Þegar lögreglan fór að athuga málið kom í ljós að erlendur ferðamaður á bílaleigubifreið hafði komið sér fyrir á miðri flöt á fjórðu holu vallarins og var að dást að útsýninu út á hafið.
Lögregla segir skýringar mannsins á veru sinni á flötinni hafa verið lítilfjörlegar og var hann rekinn af vellinum eftir að lögregla hafði tekið niður upplýsingar um hann. Segir lögregla að litlar skemmdir verði á flötinni þar sem frost er í jörðu en félagsmenn í Golfklúbbnum í Vík hafa undanfarin ár verið að byggja upp völlinn.