Viðskipti innlent

TM Software selur sjávarútvegshluta Maritech

AKVA Group ASA hefur ákveðið að kaupa hugbúnaðarfyrirtækið Maritech International AS, dótturfyrirtæki TM Software. Kaupverð nemur 80 milljónum norskra króna eða um 903 milljónum íslenskra króna og verður það greitt með peningum við fullnustu samningsins.

Í tilkynningu frá TM Software segir að í kaupunum felist sala á öllum hlutabréfum í Maritech, sem er með starfsstöðvar í Noregi, Chile, Bretlandi og Bandaríkjunum auk eigna tengdum sjávarútvegi sem heyra undir Maritech hf. á Íslandi og Maritech Software Inc. í Kanada.

Samningurinn geri ráð fyrir að TM Software afhendi AKVA Group öll kerfi sem fyrirtækið hefur þróað og tengist sjávarútvegi. Gert er ráð fyrir að sölunni verði að fullu lokið í febrúar á næsta ári eftir að áreiðanleikakönnun og frágangur endanlegs samnings hefur farið fram og öll skilyrði samningsins eru uppfyllt. Fyrirtækjaráðgjöf Glitnis var ráðgjafi seljanda.

Ágúst Einarsson, forstjóri TM Software, segir ástæðuna fyrir því að ákveðið hafi verið að selja fyrirtækið sú, að gott tilboð hafi borist frá leiðandi félagi í gerð hugbúnaðar fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Ekki er fyrirhugað að segja upp starfsfólki hjá Maritech þótt einhverjar tilfærslur geti orðið á starfsmönnum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×