Star Wars og Dirty Dancing eru þær myndir sem fólk hefur mest gaman af að horfa á aftur og aftur. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar á vegum bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky.
Gerðir voru aðskildir listar fyrir karla og konur og voru karlarnir hrifnastir af Star Wars-trílógíunni. Komst hún jafnframt í annað sætið hjá konunum á eftir Dirty Dancing. Sagðist helmingur aðspurðra hafa horft á Star Wars oftar en tuttugu sinnum. Karlar sögðust einnig hafa horft oft á The Godfather, Alien, Die Hard og Terminator 2 á meðan konurnar völdu It"s A Wonderful Life og The Matrix.
Aðrar myndir sem komust á topp tíu listann hjá báðum kynjum voru The Terminator, Jaws og The Lord of the Rings-trílógían. Karlmenn voru almennt séð hrifnari af fantasíum og spennumyndum en meira var um söngvamyndir og rómantískar hjá konunum.