Tónlist

Jómfrúardjassinn kynntur

Jakob Jakobsson veitingamaður og Sigurður Flosason hafa átt farsælt samstarf um djasstónlistarflutning á Jómfrúnni í Lækjargötu.
Jakob Jakobsson veitingamaður og Sigurður Flosason hafa átt farsælt samstarf um djasstónlistarflutning á Jómfrúnni í Lækjargötu. MYND/Stefán

Djasstónleikar á veitingastaðnum Jómfrúnni eru orðinn fastur liður í sumarafþreyingu fjölmargra miðborgargesta en á dögunum var kynnt hvaða tónlistarfólk mun troða upp í portinu hjá Jakobi Jakobssyni veitingamanni á laugardagseftirmiðdögum í sumar.

Tónleikaröðin Sumarjazz á Jómfrúnni er nú haldin í tólfta sinn en veg og vanda af henni hefur Sigurður Flosason saxófónleikari. Sú breyting verður nú á að tónleikarnir hefjast kl. 15 og standa til kl. 17 og sem fyrr verður leikið undir berum himni ef veður leyfir.

Félagarnir Thomas Madsen og Andrés Þór Gunnlaugsson ríða á vaðið næstkomandi laugardag ásamt Valdimari Kolbeini Sigurjónssyni og Scott McLemore en í júnímánuði leika einnig félagar í Kvartett Sigurðar Flosasonar, Kvartett Hauks Gröndal, hljómsveit dönsku hjónanna Hanne og Nils, sem kennd er við Valentine kvintettinn, og Kvartett Jóels Pálssonar.

Það væsir ekki um gesti í svo yndisfylltum félagsskap og standa vonir til þess að stemningin á Jómfrúnni verði ekki síðri en undanfarin sumur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×